143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:02]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að vekja athygli á útgjöldum til lögreglumála og þar með Lögregluskólans í ljósi þeirra heitstrenginga sem voru hafðar uppi í þessum þingsal og í aðdraganda síðustu kosninga. Þingmenn úr öllum flokkum, ekki síst fyrir forgöngu þingmanna úr núverandi stjórnarmeirihluta, beindu því út í stjórnmálalífið að menn hétu því að standa við ábendingar sem fram komu í skýrslunni sem var rædd í þinginu í marsmánuði fyrr á þessu ári. Þar með átti að efla menntun lögreglumanna, fjölga lögreglumönnum o.s.frv. Það er ekki staðið við þetta í því fjárlagafrumvarpi sem liggur fyrir okkur núna.

Varðandi skráningargjöldin og skólagjöld þá er þetta að þróast yfir í skólagjaldakerfi ef þessi álagning nær fram að ganga. Hið ógagnsæja í þessu er að upphæðin sem á að innheimta er miklu hærri en á síðan að renna til háskólanna.

Um gjörgæsluna og hvort komugjöldin eigi að gilda um hana hygg ég að svo sé. Það er sagt í skýringartextanum að veita eigi afslátt á komugjöldunum til öryrkja og barna, hygg ég að hafi verið, og aldraðra. Við vitum ekkert hve hann er mikill enda vitum við ekki hve komugjöldin eru há. Eini hópurinn sem er algerlega undanskilinn komugjöldum eru fæðandi mæður, það á ekki að rukka þær fyrir að leggjast inn á fæðingardeildina. Nú vil ég ekki rukka þær um krónu. En hvers vegna á að undanskilja þá sem eru þó heilbrigðir? Það er heilbrigt fólk sem eignast börn að jafnaði, en það á að undanskilja þær — sem mér finnst gott, (Forseti hringir.) ég vil ekki láta þær borga neitt, alls ekki. En (Forseti hringir.) hvers vegna að rukka þann sem er sannarlega veikur, sársjúkur og þarf að leggjast inn á sjúkrahús?