143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:48]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Já, það er best og mikilvægast fyrir öll heimilin í landinu að við eigum sterkt samfélag og það er hlutverk og verkefni okkar sem hér störfum að almannaheillum að halda utan um samfélagið.

Það poppaði upp í kollinn á mér — þegar Framsóknarflokkurinn, með sína nýhægri stefnu, lagði megináherslu á heimilin sem aðskildar einingar, sem voru ekki tengdar saman með neinu samfélagi — frasi frá Margréti Thatcher: Það er ekkert til sem heitir samfélag, það eru bara til einstaklingar. Mér fannst þetta óþægilega lík nálgun, þ.e. að horfa á heimilin án þess grundvallar sem samfélagið er. Eins og hv. þingmaður kom að þá erum við, með því að borga skatta í sameiginlega sjóði, að jafna kjör og jafna rétt fólks óháð efnahag, búsetu o.s.frv. Ég held því að það sé afar mikilvægt að við höldum því til haga í pólitískri umræðu, sem hv. þingmaður hélt mjög vel utan um hér áðan.