143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

IPA-styrkir.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Á þeim fundum sem hv. þingmaður vísar til óskaði ég ekki eftir því að Evrópusambandið héldi áfram að styrkja Ísland með IPA-styrkjum hvað varðaði ný verkefni. Ég tók það sérstaklega fram að ég skildi það mætavel ef Evrópusambandið ætlaði ekki að halda áfram að veita styrki til þessara mála á meðan staðan væri eins og hún er. Hins vegar taldi ég rétt og lýsti því yfir að mér þætti eðlilegt að Evrópusambandið afgreiddi það sem búið væri að taka ákvörðun um og menn hefðu gert ráðstafanir, lagt í kostnað jafnvel til að taka á móti. Ég fór því ekki fram á annað en að menn stæðu við þá samninga sem gerðir höfðu verið að því marki að þeir kláruðu það sem búið var að taka ákvörðun um að veita til íslenskra stofnana, enda mundi ella talsverður kostnaður falla á þessar stofnanir ef Evrópusambandið stæði ekki við ákvörðun um fjármagn til þeirra.