143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:23]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já. Við sjáum stefnubreytinguna í þessu frumvarpi. Hún sýnir okkur að menn fara nú af grænu brautinni, sem ég vil kalla beinu brautina, og af hugverkabrautinni og líka af hinni skapandi braut. Mér finnst menn ekki viðurkenna það nægjanlega í þessu frumvarpi og þessum tillögum hversu miklu máli það skiptir fyrir okkur Íslendinga að vera með sterka græna ímynd. Við gerum út á slíka ímynd, t.d. í ferðaþjónustunni; við segjum að landið okkar sé mjög grænt og við gerum líka út á það í orkugeiranum að allt sé endurvinnanlegt o.s.frv. En svo sér maður þess ekki stað í neinu öðru, við erum ekki einu sinni með umhverfisráðherra í landinu lengur, í landi sem selur þessa grænu ímynd til ferðamanna. Síðast þegar ég vissi koma 86% ferðamanna til Íslands út af náttúrunni. Við verðum mjög fljót að missa ferðamannastrauminn ef við stöndum okkur ekki í því að vernda náttúruna og ef við stöndum okkur ekki í því að vera með einhvers konar heildræna hugsun þegar kemur að hinu græna hagkerfi og umhverfismálunum almennt. Þess vegna er það mjög vont að menn skuli fara af grænu brautinni.

Græna hagkerfið er í raun og veru grein af sama meiði, t.d. það sem Tækniþróunarsjóður er að gera og hugverkagreinar yfirleitt, þ.e. við viljum byggja upp nýjar öflugar greinar sem byggja á hugviti og á sama tíma að gera náttúrunni gagn með græna hagkerfinu.

Virðulegi forseti. Það er því allt á sömu bókina lært hjá þessari ríkisstjórn, verið er að kveðja skapandi græna hugverkageirann með því sem hér er lagt til.