143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugaverð umræða og mér þykir alveg kominn tími til að við ræðum aðeins þennan blessaða ás og sérstaklega þá í hverjum málaflokki fyrir sig vegna þess að eins og við höfum nú bæði nefnt, ég og hv. þingmaður, er ekki alltaf alveg ljóst hvort við erum að tala um eitthvað hægri sinnað eða vinstri sinnað. Það má svo sem alveg kalla þessar gjaldtökur hægri sinnaðar fyrir mér en ég skildi þetta aðeins öðruvísi. Ég skildi þetta þannig að hægrið vildi minnka útgjöldin og lækka tekjurnar og að vinstrið vildi hækka útgjöldin og hækka tekjurnar á móti. (Gripið fram í: Svo er það praxísinn …) Já, svo er það alls konar — praxísinn og jafnvægið þar á milli, það fer eftir því hvað verið er að tala um o.s.frv. En mér finnst þetta einhvern veginn vera það versta úr báðum hugmyndum. Þarna er verið að leggja skatt á stofnun sem á síðan ekki að — í staðinn fyrir að skera niður hjá henni, ég átta mig ekki alveg á þessu.

Ef ég mundi kalla mig hægri mann bara svona til að hjálpa til í umræðunni, eða hvað svo sem það á að gera, þá er ég ekki viss um að ég yrði sáttur við það heldur ef ég tryði því að hér ætti ekki að vera sterkt heilbrigðiskerfi. Ég trúi því auðvitað ekki, ég tel að hér eigi að vera sterkt heilbrigðiskerfi og vil segja það fyrst ég er svona ofboðslegur pírati að það er svo sem ekki endilega mín afstaða, þess sem hér stendur, að ákvarða það heldur eru það ákvarðanir þeirra sem kjósa í landinu, nefnilega þjóðarinnar. Og aftur finnst mér frá lýðræðisvinkli vera svo mikilvægt að við stöndum vörð um heilbrigðiskerfið, af lýðræðisástæðum, burt séð frá því hvað okkur finnst um það í þessari pontu hvort þetta sé góð eða slæm hugmynd. Við ættum að spyrja þjóðina um gildismat hennar því að það er þaðan sem við fáum valdið.

Ég hef sagt stundum að mér finnist varla taka því að fara í einhverjar skoðanakannanir á þessu vegna þess að gildismatið er skýrt og vilji þjóðarinnar er algjörlega skýr í málinu. En ég furða mig á þessum gjöldum og vildi helst að þau færu og ég ætla bara að skora á hæstv. ríkisstjórn að endurskoða þessa hugmynd alfarið, bæði komugjöldin og legugjöldin.