143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:59]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég er ekki fyllilega sammála hv. þingmanni hvað þetta varðar. Ég tel að það sé ákveðin meinloka fólgin í því að trúa því, eins og hefur m.a. komið fram í máli annarra hv. stjórnarþingmanna, að það sé ósanngjarnt að þeir sem komi á göngudeildir þurfi að borga en þeir sem komi inn á sjúkrahús þurfi ekki að borga. Hv. þingmenn hljóta að átta sig á því að það er fyrst og fremst alvarleiki veikinda viðkomandi einstaklinga sem ræður því hvort þeir leggjast inn á sjúkrahús eða ekki. Og að breyttu breytanda eru það veikustu einstaklingarnir sem leggjast inn á sjúkrahús en það eru þeir sem eru þó ekki veikari en svo að þeir geti sótt sér læknisþjónustu heiman að frá sér eða frá sjúkrahótelinu sem ekki leggjast inn á sjúkrahús. Við eigum að draga strikið þarna, við eigum að segja: Nei, þarna ætlum við að hætta að rukka. Við þurfum þess ekki, við erum ríkt samfélag og við eigum að leyfa okkur þann „munað“ að vera ekki að rukka fólk þegar það leggst inn á sjúkrahús.