143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú hálfsláandi að hlusta á hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra fara yfir málin varðandi Farice vegna þess að þessi mál liggja í fjármálaráðuneytinu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon á að vita það jafn vel og aðrir þingmenn að þær tekjur sem fara inn í fjarskiptasjóð, sem eiga að vera merktar uppbyggingu ljósleiðaranets hringinn í kringum landið, fara beinustu leið í svelginn sem Farice er og stoppa ekki í sjóðnum. Ég lagði fram margar fyrirspurnir sem þingmaður á síðasta kjörtímabili varðandi þessa samninga og það apparat sem Farice er og því finnst mér mjög undarlegt að þingmaðurinn sé ekki betur inni í málinu.

Það er ekkert að fara að gerast að við séum að fara að byggja upp eitthvert ljósleiðarakerfi hér hringinn í kringum landið nema stórauknar tekjur fari inn í fjarskiptasjóð, vegna þeirra samninga sem ríkið stendur að gagnvart þessu fyrirrtæki svo að það sé sagt hér í framhaldi af orðum hv. þingmanns.