143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:18]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert sjónarmið út af fyrir sig að það veitti svo sem ekkert af því að ráða starfsfólk til að eyða misskilningi og tortryggni í forsætisráðuneytinu. En það sem vekur athygli er að á sama tíma og menn boða einhverja svona duglega aðgerð að skerða Stjórnarráðið um 5% þá bæta þeir verulega við í alls kyns, hvað eigum við að segja, þóknanlega ráðgjafarhópa, sem kosta tugi milljóna, til að leita lausna á ákveðnum málum og til að fylgja þeim eftir.

Ég hef engar athugasemdir í sjálfu sér við að færa ákveðinn hluta menningar- og menntamála í forsætisráðuneytið. Aftur á móti kemur á óvart hvernig birtingarmyndin er á þeirri umgjörð. Það kemur líka mjög á óvart og það er náttúrlega forvitnilegt í sjálfu sér að t.d. upphæðin sem við vorum að rífast um í fjáraukanum, 300 millj. kr. sem voru dregnar saman úr mörgum liðum og settar í eina púllíu sem átti að fara í skipulag í sambandi við menntamál, er dregin til baka með tillögum í morgun — á sama tíma og við vorum að hlusta á af hverju þetta væri gert svona. Þetta er dregið til baka einfaldlega vegna þess að Ríkisendurskoðun telur ekki rétt samkvæmt fjárreiðulögum að gera þetta þannig. Það má því segja að sem betur fer hefur margt lagast í þessum fjárlögum einmitt vegna málflutnings stjórnarandstöðunnar og vegna gagnrýni og annars. Það stingur þó mjög í augu að þeir skulu ekki hafa séð sóma sinn í að bæta inn desemberuppbótinni hjá atvinnuleitendum sem er náttúrlega út af fyrir sig fullkomlega óskiljanlegt og hefði átt að vera gott dæmi um að við sinntum okkar minnstu bræðrum og systrum betur á sama tíma og við gerðum það líka í þróunaraðstoðinni.

En mig langar í lokin að spyrja hv. þingmann aðeins út í umræðurnar um IPA-styrkina vegna þess að mér finnst það vera svolítið merkilegt mál og ég veit að hv. þingmaður þekkir sögu þess mjög vel. Nú eru menn á harðahlaupum að reyna að bjarga peningum því það er náttúrlega verið að leggja af 500–600 millj. kr. verkefni, eitt af um 2 þús. millj. kr. verkefnum, sem hafa ekkert með aðlögun að gera í þeirri merkingu sem menn hafa sagt í sambandi við (Forseti hringir.) Evrópusambandið. Þarna er fjöldi starfa og stórmerkileg rannsóknarverkefni í hættu vegna einhverra fíflaláta hjá íslenskum stjórnvöldum.