143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:03]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki heyrt alla ræðuna mína því að ég tiltók það í upphafi ræðu minnar að ég hefði talið og látið það í ljós að á síðasta kjörtímabili hefðum við gengið of nærri heilbrigðiskerfinu. Það kom bæði fram í tali mínu hér í þingsal og einnig innan míns stjórnmálaflokks.

Ég hins vegar, eins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður geri sér grein fyrir, áttaði mig á því á þeim tíma að hér hafði orðið eitt stykki hrun og það var skorið niður til allra málaflokka eða nánast allra málaflokka. Minnst var skorið niður í heilbrigðiskerfinu, hlutfallslega, þó að krónurnar hafi augljóslega orðið mjög margar þar vegna þess að það er svo stór þáttur. Ég taldi þá og tel enn að við höfum gengið fulllangt í niðurskurðinum og þess þá heldur tel ég ekki svigrúm núna til að draga úr, til að leggja á ný gjöld, bara alls ekki. Hlutur sjúklinga í heilbrigðisþjónustu er nú þegar orðinn of hár og við eigum ekki að stíga skref í þá átt að bæta þar við.

Varðandi fullyrðingar þingmannsins um afstöðu Vinstri grænna til einkarekstrar í heilbrigðiskerfinu er mér bæði ljúft og skylt að upplýsa þingmanninn um að stefna Vinstri grænna hvað varðar einkarekstur í heilbrigðiskerfinu gengur út á að við viljum ekki að rekstur í heilbrigðiskerfinu sé í ágóðaskyni, en við höfum ekkert á móti einkarekstri í heilbrigðiskerfinu svo framarlega sem hann er ekki rekinn í hagnaðarskyni. Það hefur margoft verið sagt á landsfundi VG.