143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Á bls. 279 stendur, með leyfi forseta:

„Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að ríkistekjur aukist um 137,3 millj. kr. og að greiðsla úr ríkissjóði lækki á móti um sömu fjárhæð.“

Þetta er í samræmi við áform um að háskólunum verði heimilað að hækka skrásetningargjald sem nemendur greiða o.s.frv. Það er erfitt að skilja þetta öðruvísi en þetta sé algerlega króna fyrir krónu.

Varðandi spurninguna um lögmæti hækkunarinnar þá er fróðleg umfjöllun um þetta í greinargerð bandormsfrumvarpsins, 3. mál. Þar kemur fram að samkvæmt bókhaldi Háskóla Íslands var raunkostnaður þar 69.600 kr. og í Háskólanum á Akureyri um 80 þús. kr., hvort tveggja á árinu 2012. Ef meðaltalið er tekið og miðað við verðlag ársins 2013 ætti það að vera um 72.400 en svo taka menn 4% verðhækkun á þetta umfram verðuppreikning annarra liða í fjárlagafrumvarpi og koma því þannig upp í 75 þús. kr. og telja það vera hæfilegt gjald á árinu 2014. (Forseti hringir.) Ég tel að hér sé farið á ýtrasta vað gagnvart því að hækkun gjaldsins sé ólögleg því hún fari umfram það sem bókhaldsgögn opinberu háskólanna benda til að raunkostnaðurinn sé.