143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[11:16]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp bara til þess að lýsa yfir ánægju minni með þetta mál og vil þakka hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur fyrir að koma með það fram. Það voru vissulega komin fram tvö þingmál um þetta í haust, annars vegar frá Vinstri grænum og hins vegar frá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, sem ég var m.a. meðflutningsmaður á.

Það sem mig langar til að segja er að ferli þessa máls lýsir akkúrat hvað er hægt að vinna vel saman á þingi með góðu samráði og hjá okkur í allsherjar- og menntamálanefnd var einhugur um þetta. Þetta er mjög mikilvægt mál í stöðunni og innlegg í það leiðréttingarferli sem er í gangi. Ég er mjög ánægður með hvernig til tókst og sérstaklega var ég ánægður með samvinnuna, sem er nú reyndar mjög góð í okkar nefnd, svo ég segi það nú, við erum afskaplega samvinnufús og tölum vel saman um málin. En þetta eru mjög góð skilaboð frá Alþingi svona rétt fyrir jólin, alls ekki slæmt að þetta fólk skuli fá þetta frumvarp inn, því það gefur fólki möguleika á því að njóta góðs af komandi leiðréttingum og missa ekki húsin sín á uppboði.

Ég fagna þessu. Þetta er akkúrat dæmi um vinnubrögð sem er góður bragur að.