143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þessar breytingartillögur Samfylkingarinnar eru ekki sannfærandi. Það er ekki sannfærandi að koma hér fram og segjast vilja halda í það markmið að hafa hallalaus fjárlög og koma á sama tíma fram með tekjutillögur um hert skatteftirlit upp á 3 þús. millj. kr. sem væntanlega voru líka til staðar á síðasta ári þegar Samfylkingin fór með fjármálaráðuneytið. Það vill enginn trúa því að einhver stjórnmálaflokkur, hvort sem það er Samfylkingin eða einhver annar, hafi látið eiga sig að sækja þá peninga ef það var svona einfalt að ná í þá.

Á sama tíma vil ég vekja athygli á því að Samfylkingin gagnrýndi tekjuöflun ríkisstjórnarinnar, gagnrýndi bankaskattinn og einnig breytingar á skuldabréfi Seðlabankans. Hér er gert ráð fyrir því að það sé enn þá inni og bætt í bankaskattinn sem nemur 6 milljörðum kr.