143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:44]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er rétt að gefa skýringar á því af hverju við kjósum að kalla staflið b til baka. Þar fór eitthvað úrskeiðis í prentun tillögunnar vegna þess að í breytingum okkar á tryggingagjaldi, eins og fram kemur í breytingartillögum við þingmál nr. 2 þar sem meðferð tryggingagjaldsins er til meðferðar í bandormi, leggjum við til tilfærslu í tryggingagjaldi upp á 0,1% úr almennu tryggingagjaldi yfir í tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs. En það mætti ráða af þessum texta að við værum að leggja til beina hækkun almenna tryggingagjaldsins, svo er ekki. Við erum hvorki að leggja til beina hækkun almenna tryggingagjaldsins né tryggingagjaldsins í heild heldur tilfærslu úr almenna tryggingagjaldinu yfir til Fæðingarorlofssjóðs þar sem allt of langt er gengið í lækkun tekjustofns hans. Það hefur vissulega í tekjutap í för með sér fyrir ríkið upp á um 1 milljarð kr. en í staðinn nýtur Fæðingarorlofssjóður góðs af. Það tekjutap er fjármagnað í okkar tillögum.