143. löggjafarþing — 40. fundur,  18. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:33]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegur forseti. Rekstrarkostnaður Bankasýslunnar árið 2013 var 75 millj. kr. eða 20% undir áætlun. Hún býr yfir dýrmætri sérþekkingu og störf hennar hafa verið mjög vönduð í alla staði. Bankasýslan gætir afar mikilla hagsmuna fyrir ríkissjóð, þeir nema hundruðum milljarða. Bankasýslan heldur utan um eignarhlut ríkisins í bönkunum og skipuleggur sölu á þeim.

Mér er sagt að Bankasýslan geti tekið að sér 20 millj. kr. niðurskurð en ekki 50 millj. kr. niðurskurð. Það munar því 30 millj. kr. að það takist að halda stofnuninni í núverandi mynd. Verði starfsemin skert er líklegt að hægi á brýnum verkefnum. Tefjist sala á þessum gríðarmiklu eignum um einungis eina viku vegna þessa niðurskurðar mun ríkið tapa 70 milljónum í vaxtakostnaði. Slíkt tap mundi jafnast á við rekstrarkostnað Bankasýslunnar í heilt ár. Ég vona að þetta varpi ljósi á áhættuna sem tekin er með því að spara þessar 30 milljónir.

Ég mun greiða atkvæði með tillögunni en geri það í trausti þess að hv. fjárlaganefnd skoði mál Bankasýslunnar milli umræðna.