143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[19:56]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir þessa kynningu. Mig langar að spyrja hann. Hann leggur til að makrílkvótinn verði boðinn út til leigu, væntanlega. Hvað á sú leiga að vera til margra ára? Ef ég skil hann rétt er þetta leiga fyrir utan sérstakt veiðileyfagjald. Þrátt fyrir að sérstöku veiðileyfagjöldin á þennan útgerðarflokk hafi verið hækkuð um 40% á þessu ári þá leggið þið þetta til. Hvað er það til margra ára?

Svo leggið þið til 2,1 milljarð. Væntanlega er það þá ekki á uppsjávarskipin líka, eða þessi makrílskip, heldur á bolfisksskipin. Fiskveiðiárið byrjar 1. september þannig að það eru fjórir mánuðir eftir af árinu þegar það á að leggja þennan 2,1 milljarð á. Er það fyrir þessa fjóra mánuði? Er þetta bara hluti af því, skil ég það rétt að þetta sé hluti af þeim átta mánuðum sem eftir eru af kvótaárinu?