143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um það hvort fella eigi brott heimild ráðherra til þess að ljúka samningi eða staðfesta samning sem var gerður hér og farið fram hjá lögbundnum aðilum, Ríkiskaupum, án þess að aðrir aðilar fengju að bjóða í samninginn. Það er á skjön við jafnræðisregluna sem á að gilda í opinberum innkaupum. Kostnaðurinn er einstaklega óhagstæður svo ekki sé dýpra í árinni tekið fyrir skattgreiðendur, 83 millj. kr. verðtryggðar greiðslur, óuppsegjanlegt í 15 ár. 500 millj. kr. í svokallaðri fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar átti að nota til að setja upp sýningu í Perlunni og rekstrarkostnaður 130 millj. kr. á ári.

Það verður fróðlegt að sjá það hverjir eru ekki fylgjandi því að taka þetta út og staðfesta þar af leiðandi ekki samninginn. Það er kominn tími til að þessi gjörningur verði sérstaklega skoðaður, einkum í ljósi frétta dagsins um að það eigi að fara í þetta hvort sem er, þannig að (Forseti hringir.) það hefði aldrei þurft að setja þá milljarða (Forseti hringir.) sem gert var ráð fyrir af hálfu skattgreiðenda í þetta ævintýri.