143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

177. mál
[13:27]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þessi breytingartillaga hv. þingmanns er góðra gjalda verð. Ég ásamt fleirum í nefndinni teljum að hún þurfi frekari og annarrar umræðu við en í þessu frumvarpi sem hér er. Við höfum því ekki verið hlynnt því að hún komi inn í þetta frumvarp og felldum breytingartillöguna í atkvæðagreiðslunni í gær eða fyrradag. Nú kemur hv. þingmaður með nokkuð breytta breytingartillögu. Ég lýsi því yfir að ég get tekið undir með hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni um tvennt; að endurskoða megi hvernig stjórnir lífeyrissjóða eru samansettar, að endurskoða megi með hvaða hætti fjárfestingar eru í lífeyrissjóðum og hversu gegnsæjar og aðgengilegar þær eigi að vera sjóðfélögum.

Virðulegur forseti. Mér finnst breytingartillagan ekki eiga heima í þessu frumvarpi en mun hins vegar styðja framkomna slíka tillögu til umræðu hér á Alþingi vegna þess að ég held að þarft sé að löggjafinn ræði nánar hvernig hann vill byggja það umhverfi sem lífeyrissjóðirnir eiga að starfa í.