143. löggjafarþing — 43. fundur,  19. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[19:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég er hjartanlega sammála því að agi í ríkisfjármálum og ríkisreikningi, framkvæmd fjárlaga í raun og veru, sé með sem bestum hætti. Þess vegna höfum við líka talað um það, bæði í nefndaráliti okkar um fjárlög og líka í tengslum við umræðu hér um tekjuöflunina, að það sé afskaplega mikilvægt að átta sig á því að afgangurinn sem á að vera á fjárlögum næsta árs er alveg gríðarlega viðkvæmur. Miðað við það hvernig framkvæmd fjárlaga hefur verið — hún hefur að vísu að ég held batnað — skulum við hafa það algjörlega á bak við eyrað að verulega sterkar líkur eru á því að í endanlegum ríkisreikningi verði halli.

Við höfum því haft dálitlar áhyggjur af ákveðnu kæruleysi í tekjuöfluninni þar sem menn eru að afsala sér, fullfljótt að okkar mati, tekjum. Við höfum nefnt fjölmörg dæmi um það. Það er verið að ná inn tekjum með skattstofnum eða gjaldtökustofnum sem geta ekki verið sjálfbærir eða til langs tíma eins og bankaskattinum. Ég hef miklar áhyggjur af því að fjármagna eigi 80 milljarða kr. aðgerð til að leiðrétta skuldir heimilanna með tekjustofni sem gæti verið horfinn á næsta ári. Það held ég sé mjög mikið áhyggjuefni. Ég býst við að hv. þingmaður hafi líka áhyggjur af því.

Við höfum hins vegar lagt áherslu á það í umræðum um ríkisfjármálin að við viljum tekjuskapandi aðgerðir. Við höfum því lagt þunga áherslu á að meiri framlög þyrfti til heilbrigðismála. Orðið var við því; að vísu var það fjármagnað með niðurskurði og meðal annars til þróunarhjálpar sem mér finnst alveg fáránlegt. Svo höfum við lagt áherslu á framlög til nýsköpunar og þróunar. Ég fór yfir það (Forseti hringir.) í ræðu minni hvernig þau framlög hafa verið að skila sér margfalt til baka í ríkissjóð á undanförnum árum.