143. löggjafarþing — 44. fundur,  20. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:13]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Við erum nú að sigla í lok þessa þinghalds hér fyrir jól og eðlilegt að með síðustu málum á dagskrá sé 3. umr. um fjárlög næsta árs.

Ég minnist þess varla að á síðustu klukkustundunum áður en fjárlögum er lokað hafi tölurnar stokkið upp um yfir 20 milljarða kr., bæði á tekju- og gjaldahlið. Það er óvenjulegt að slíkt komi inn undir kvöld dagsins áður en ljúka á umfjöllun og afgreiðslu fjárlaga. Það munar nú um minna. Ég man ekki dæmi slíks. Af sjálfu leiðir að menn hafa ekki haft mikinn tíma til að skoða það sem því máli fylgir. Satt best að segja eru engin gögn af einu eða neinu tagi reidd fram um það mál, til að mynda í efnahags- og viðskiptanefnd sem fékk það hlutverk að setja inn í viðeigandi lagafrumvarp tekjustofninn eða tekjuaukann, fyrr en á um það bil hálftímalöngum fundi undir kvöld í gær. Þannig var það.

Ég hlýt að taka undir það sem síðasti hv. ræðumaður var að segja. Ef maður tæki það alvarlega er það sem reitt er hér fram með þessu máli náttúrlega á engan hátt boðlegt. Auðvitað veltir maður því fyrir sér í hvað tíminn hefur verið notaður síðan 30. nóvember. Af hverju kom þetta mál ekki tiltölulega fljótt til þingsins þannig að þingið hefði þær vikur sem síðan eru liðnar til þess að skoða gögn og meta málið? En það var ekki gert. Þessu var haldið hjá stjórnarflokkunum og þetta kom ekki inn við 2. umr., hvorki fjárlagafrumvarps né tekjuöflunarfrumvarpa; nei, beðið var með þetta þar til síðdegis í gær. Þá fær efnahags- og viðskiptanefnd loksins að vita hvert eigi að vera endanlegt álagningarhlutfall bankaskattsins og fjárlaganefnd var beðin um að taka útgjaldaheimildirnar inn sín megin. Þetta á sér, held ég, tæpast fordæmi.

Ég vil aðeins segja hér um ræðuna á Alþingi og störf þessa ágæta þings sem kom hér saman á nýjan leik 1. október af því að ríkisstjórnin var ekki tilbúin með fjárlagafrumvarp og fékk lögbundinni þingsetningu frestað, hvernig þetta blasir við manni núna þegar við erum á lokametrunum að ræða hér málin rétt fyrir jólaleyfi. Ég verð að segja að ég er tiltölulega ánægður með þann brag sem hefur verið á þinginu í það heila tekið og ég er sérstaklega ánægður, herra forseti, með stjórnarandstöðuna. Það þykja kannski ekki mikil tíðindi af því ég tilheyri henni, en ég ætla að leyfa mér að fara aðeins yfir þetta mál. Það verður gaman að vita hvort einhverjir gerast órólegir ef maður gerir það. Ég segi eins og hv. síðasti ræðumaður, ég ætla að ræða þetta út frá mínum sjónarmiðum og ekki tala fyrir neina aðra. Ég ætla ekkert að reyna að halda því fram að mitt mat á þessu eða mín umfjöllun um þetta sé sú eina rétta.

Ég tel að það hafi teiknast hérna upp fyrir okkur á þessu haustmissiri og nú síðustu dagana sérstaklega að landið hefur aftur eignast tiltölulega málefnalega og uppbyggilega stjórnarandstöðu. Til hamingju með það, Ísland. Það er himinn og haf á milli þess hvernig umræður hafa verið hér á þessu haustmissiri, hvernig framganga stjórnarandstöðunnar hefur verið, og var á síðasta kjörtímabili. Þá var stunduð hér einstök niðurrifs- og eyðileggingarstarfsemi sem átti ekkert skylt við málefnalega eða uppbyggilega stjórnarandstöðu. (Gripið fram í: Það er bara ekki eins mikil vitleysa í gangi núna, Steingrímur.) Forseti, mér datt í hug að einstöku menn þyldu þetta ekki, mér datt það í huga. (Gripið fram í: … vitleysa í gangi …) Það verða oft tilteknir aðilar í svona hópum til að ríða á vaðið. Það er til máltæki við þetta á íslenska tungu: Þeir sem fara fyrstir á foraðið. (Gripið fram í: … éta hann sjálfur …)

Þessi stjórnarandstaða hefur náð sýnilegum árangri þrátt fyrir að halda ekki störfum Alþingis hér í upplausn og illindum og leggjast gegn hverju einasta máli. Þvert á móti er hér að takast með alveg ágætlega sæmilegum brag, að vísu talsvert seinna en til stóð, að ljúka þinginu og allir vita í hverju sú seinkun er fólgin. Hún er aðallega bundin við það að stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórn voru ekki búin að ná saman endanlega um tillögur sínar og þess vegna varð til dæmis að seinka 2. umr. fjárlaga um tæpa tíu daga.

Ég tel að þetta sé ánægjuefni og viti frekar á gott vegna þess að ég hef bundið innilega vonir við að stjórnarandstaðan, eins og hún gekk fram og hegðaði sér og þróaðist á síðasta kjörtímabili, verði bara einsdæmi í íslensku þingsögunni, að við eigum aldrei aftur eftir að eignast stjórnarandstöðu sem gangi jafn ótrúlega langt og raun bar vitni þá um að reyna að eyðileggja og rífa niður vinnu þingsins sem slíks og koma í veg fyrir eðlilega afgreiðslu mála. Þetta hefur auðvitað tekið á sig ýmsar hlægilegar myndir eins og þær þegar núverandi stjórnarflokkar, ráðherrar í ríkisstjórn, hafa þurft á færibandi að flytja hér inn á þing mál sem þeir stöðvuðu sjálfir í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili, jafnvel sauðmeinlaus innleiðingarmál á einhverri evrópskri tilskipun. En meinbægnin var orðin þannig og andrúmsloftið var orðið þannig. Auðvitað er ég ekkert að reyna að halda því fram að það hafi allt verið stjórnarandstöðunni að kenna, en hún þarf að axla verulega ábyrgð á því hvernig hún hegðaði sér á síðasta kjörtímabili.

Hér hefur tekist sæmileg samstaða um að klára þetta þinghald. Það er auðvitað ekki þannig að menn verði sáttir um allt sem afgreitt er, en það er ríkisstjórn og það er meiri hluti sem hún styðst við sem eðlilega ræður ferðinni. En hér er líka stjórnarandstaða sem hefur sín sjónarmið, hefur komið þeim á framfæri og ætlast til þess að á hana sé hlustað og eftir atvikum eitthvað með hana gert þegar hún hefur góðan málstað fram að færa. Það hefur skilað sér í því að þó nokkrar lagfæringar hafa verið gerðar á fjárlagafrumvarpinu við 2. og núna 3. umr. aðallega og nokkrum tengdum frumvörpum. Það er ánægjuefni og væri betur ef við ættum eftir að sjá meira af slíku.

Þannig vil ég fagna því sérstaklega, þó að ýmsir telji það kannski ekki meðal stóru málanna, að það tókst að bjarga, eða tekst væntanlega eftir atkvæðagreiðslur, inn í fjárlögin aftur fjárheimild til handa Byggðastofnun til að halda áfram með það verkefni sem hún hefur verið að þróa með stuðningi og hvatningu frá stjórnvöldum að styðja sérstaklega við og grípa til sértækra aðgerða í veikustu byggðum landsins, einfaldlega vegna þess að reynslan hefur sýnt að hinar almennu aðgerðir duga ekki. Þær nýtast ekki þegar ástandið og erfiðleikarnir eru komnir á það stig að í raun og veru er í gangi má segja síðasta tilraunin til að reyna að verja viðkomandi byggðir endanlegu hruni, að þær bara tæmist eða eyðist. Byggðastofnun hefur á grundvelli greininga á þessu og með góðum rökstuðningi, að ég tel, mótað þá aðferðafræði að til viðbótar við almennum atvinnuþróunar- og byggðaúrræðum verði að koma til sértæk vinna með fólkinu í þeim byggðum sem allra brothættastar eru.

Það hafa líka verið settar til hliðar veiðiheimildir þannig að Byggðastofnun getur gert samninga við aðila í heimabyggð um uppbyggingu þegar í hlut eiga sjávarbyggðir sem í flestum tilvikum eru minni eða mjög lítil sjávarpláss sem hafa farið illa út úr kerfinu, misst frá sér veiðiheimildir, þar sem verið hefur mikil fólksfækkun, atvinnulífið orðið mjög einhæft og byggðin öll brothætt. Að sjálfsögðu er það eðlileg nálgun að horfa til þess sem hefur gert þessar byggðir að byggðum í gegnum tíðina, nálægðarinnar við sjóinn. Aðrar ráðstafanir þarf svo kannski til í byggðarlögum sem byggja meira á landbúnaði eða öðrum atvinnugreinum. Við lögðum á þetta mikla áherslu, þingmenn Vinstri grænna, að haldið væri áfram með þetta verklag og því ekki stútað eins og til stóð. Þess vegna er það gleðiefni að þessar 50 millj. kr. koma þarna inn á liðinn Brothættar byggðir.

Ég fagna því líka sérstaklega, og hef gert áður, að hætt var við þau afar undarlegu áform um að draga úr stuðningi við nýsköpunar- og þróunarstarf sem miðar að endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, öllu heldur í nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum. Það hefur aðeins dregið úr hinum harkalega niðurskurði á rannsóknarsjóðina. Rannsóknasjóður fær aukalega 50 milljónir. Sjóðir á sviði skapandi greina fá nokkra úrbót mála. Þannig að þeir verða að minnsta kosti til áfram með einhverjum fjármunum, myndlistarsjóður og hönnunarsjóður. Þar til viðbótar eru svo aðrir sem fyrir höfðu einhverja fjármuni.

Þá munar að sjálfsögðu mikið um það að desemberuppbót verður núna greidd, ef ekki í dag þá vonandi eftir helgina, til atvinnuleitenda. Það hefði auðvitað verið alveg stórkostlega undarleg ráðstöfun ef það hefði ekki verið gert í lok árs 2013 þegar atvinnuleysið hefur sem betur fer minnkað umtalsvert. Kostnaður við að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót er sennilega kominn niður undir helming af því sem var þegar hann var mestur, einfaldlega af því að þá voru þeir miklu fleiri sem áttu annaðhvort óskertan eða lítt skertan rétt til slíkra bóta. Nú fær þessi hópur þessa meðferð og það er að sjálfsögðu sanngjarnt og eðlilegt.

Ég undraðist sjónarmið, sem ég sá sett fram, um að þetta væri bara einhver misskilningur að atvinnuleitendur ættu að fá desemberuppbót vegna þess að þetta væri uppbót á laun vinnandi fólks. Nú, ég hélt nú að grunnhugsunin við atvinnuleysisbætur væri sú að bæta mönnum upp tekjutapið af því að þeir hafa ekki vinnu, og því væri eðlilegt að taka mið af kjörum þeirra sem eru úti á vinnumarkaði, því það er verið að bæta upp þær tekjur sem menn ella hefðu ef þeir væru úti á vinnumarkaði. Auðvitað eru atvinnuleysisbætur mjög lágar og erfitt hlutskipti að reyna að draga fram lífið af því, sérstaklega ef það varir í einhvern lengri tíma. Ekki síður í því ljósi að grunnatvinnuleysisbæturnar eru mjög lágar væri það nú að bíta höfuðið af skömminni að þær tækju ekki á sig desemberuppbót.

Ég vil svo sérstaklega fagna einni breytingartillögu við lið 02-201 Háskóli Íslands, þar sem er á ferðinni byggingaframkvæmdir og tækjakaup. Þar er lögð til, með skýringum á þingskjalinu, fyrri fjárveiting af tveimur upp á 20 millj. kr. til Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands til að fjármagna kaup á örgreini. Það er afar mikilvægt rannsóknartæki sem auðvitað þarf að vera til í landinu. Þannig háttar til að gamli örgreinirinn, eða massagreinirinn eins og við kölluðum hann í gamla daga, sem Íslendingar fengu í raun og veru með tilkomu Norrænu eldfjallastöðvarinnar eða í gegnum hana, er algjörlega úr sér genginn, ónýtur, og ekki hægt að gera við hann. Engum framleiðanda til að dreifa til að sækja til varahluti o.s.frv., enda tækið orðið fjörgamalt. Þetta er gríðarlega mikilvægt rannsóknartæki, ekki síst í jarðvísindum. En fleiri greinar koma þar við sögu þannig að allar helstu rannsóknarstofnanir hafa sameinast um að reyna að leggja saman kraftana til þess að gera það mögulegt að kaupa þetta nýja tæki inn í landið og vonandi verður það hægt á næsta ári og meðal annars með þessum stuðningi.

Það vantar að vísu nokkuð upp á enn þá að búið sé að safna nægjanlegu fé, en ýmsir aðilar eru að leggja þessu lið, þar á meðal hefur verið sótt um styrk í sjóði og er verið að því áfram. En vonandi tekst að brúa það bil sem út af stendur þannig að hægt verði að kaupa nýjan örgreini og setja hann upp á næsta ári. Það er fjárfesting upp á um 160 millj. kr., tækið sjálft án virðisaukaskatts. Þannig að tvisvar sinnum 20 millj. kr. fjárveiting í viðbót frá ríkissjóði — fyrri ríkisstjórn hafði reyndar ákveðið að styrkja þetta framtak um 35 millj. kr. og þeir peningar eru til reiðu — er mjög nálægt því að vera ígildi virðisaukaskattsins sem greiddur verður á tækið. Það er nú ekki hægt að segja að ríkinu sé beinlínis að blæða þó að það verji svipaðri fjárhæð í styrk til háskólans þannig að af þessu geti orðið. Það ættu fleiri góðir aðilar í samfélaginu að taka sér þetta til eftirbreytni og ég skora hér með á stór fyrirtæki í landinu og aðila sem eiga mikilla hagsmuna að gæta í því, t.d. flugið og samgöngugeirinn, að þetta rannsóknartæki sé til staðar í landinu, að leggja þessu lið.

Við vorum heldur betur minnt á mikilvægi þessa þegar eldgosin komu í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum, en þetta er líka mikilvægt tæki vegna aldursgreininga fornleifarannsókna og fjölmargra annarra hluta. Þannig að Jarðvísindastofnun, Norræna eldfjallasetrið, Veðurstofan, orkurannsóknirnar, fornleifarannsóknirnar og fjölmargir fleiri eiga mikið undir því að þetta tæki sé í landinu.

Herra forseti. Ég hef svo sem áður, í umræðum bæði um þetta þingmál, fjárlögin fyrr, við 1., 2. umr. og frumvörp sem því tengjast, viðrað nokkuð áhyggjur mínar af horfunum í ríkisfjármálunum til næstu ára. Það er auðvitað umtalsverð óvissa uppi og hún hefur ekki, finnst mér, minnkað að öllu leyti eins og æskilegt væri nú á þessu ári og í tengslum við afgreiðslu þessa frumvarps og tengdra mála. Þvert á móti er sú stefna sem hæstv. ríkisstjórn hefur valið í þessum efnum ávísun á talsverða óvissu inn í framtíðina. Það er einfaldlega vegna þess að tekin hefur verið ákvörðun um að veikja umtalsvert tekjugrunn ríkissjóðs til næstu ára þannig að framreikningur á horfum sýnir að afkoman verður í járnum næstu fjögur árin eða svo og við munum ekkert komast áfram í því að fara að skila einhverjum teljandi afgangi af ríkissjóði og greiða niður skuldir. Það blasir við. Það er í fyrra hefti fjárlagafrumvarpsins teiknað upp og undirritað eða á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra sjálfs.

Auðvitað bætist svo við það sem nú kom korteri fyrir tólf inn í fjárlagafrumvarpið og tekjuöflunarfrumvörpin, í raun vantaði klukkuna bara eina mínútu í tólf þegar hækkun bankaskattsins kom hér inn í gærkvöldi, sú stóra aðgerð, óvissan um fjármögnunina og óvissan síðan um útfærsluna á hina hlið, hún eykur ekki beinlínis stöðugleikann í íslenskum ríkisfjármálum og efnahagsmálum, það væri mikill barnaskapur að horfa fram hjá því. Auðvitað er þetta aðgerð af þeirri stærðargráðu að margt í kringum hana skapar óvissu. Menn geta gert sér vonir um að óvissan sé í rétta átt. Það sé óvissa upp á við, en það getur líka verið óvissa niður á við. Það er oft þannig. Það er erfitt að meta hvort áhrif verða jákvæð eða neikvæð þegar upp er staðið.

Ég sagði það strax þegar þessar aðgerðir voru kynntar að mér væri rórra en mér hafði verið frá vorinu vegna þess að umfang þeirra er miklu minna en helstu aðstandendur málsins, framsóknarmenn, hefðu lofað fyrir kosningar. Þar af leiðandi er þetta ekki jafn risavaxin stærð inni í hagkerfinu sú tilfærsla sem þarna á að verða á fjármunum. En engu að síður eru þetta nú 80 milljarðar brúttó á fjórum árum. Það er komið í ljós og er nú staðfest, sem ég þóttist lesa út úr plöggunum, að það er brúttófjárhæðin.

Í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar er birt sem fylgiskjal minnisblað sem við fengum náðarsamlegast í gær undir kvöld frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, skrifstofu opinberra fjármála, sem er eiginlega fyrsta plaggið, fyrir utan skýrslu nefndarinnar, sem ég sé um þessa aðgerð frá hæstv. ríkisstjórn. Þar koma út af fyrir sig fram gagnlegar upplýsingar og staðfestist sumt af því sem ég hafði leyft mér að reikna með að væri og talað út frá, meðal annars í fjölmiðlum, að 80 milljarða talan eða 20 milljarða talan á hverju ári er brúttófjárhæðin og frá henni dregst kostnaður.

Frá henni dragast líka vextir og verðbætur af leiðréttingarhluta lánanna á því fjögurra ára tímabili sem þau eru að greiðast upp. Vanskil verða gerð upp og dregin frá áður en til niðurfærslu höfuðstóls kemur og ef ég veit rétt — í ljósi þess líka að allar fyrri ráðstafanir sem tengdust höfuðstól lána koma til frádráttar þessum aðgerðum, þ.e. niðurfelling lána á yfirveðsettu húsnæði samkvæmt svonefndri 110%-leið, sértæk skuldaaðlögun, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og greiðsluaðlögun, þar með talið greiðsluaðlögunarreikningar verða gerðir upp, þannig að þegar upp verður staðið verður nettóniðurfærsla höfuðstólsins væntanlega komin niður í 70 milljarða, jafnvel neðar. Ég hafði reiknað með að hún yrði 72, en mér sýnist á þessu, sem nú hefur orðið opinbert, að eiginleg og endanleg niðurfærsla höfuðstóls verði enn lægri og það dreifist á fjögur ár. Það skiptir að sjálfsögðu máli.

Engu að síður verður ekki fram hjá því horft að margir hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum þessara aðgerða, velta fyrir sér hver þau verða og augljóslega er það kannski hættan á verðbólguþrýstingi sem er nærtækust og blasir við. Því miður var verðbólgumæling nú síðast ekki mjög hagstæð. Við stöndum í 4,2% ársverðbólgu miðað við síðustu mælingu. Það er þó nokkuð. Sú verðbólga má nú ekki fara mikið upp til þess að um það bil 5% niðurfærsla verðtryggðra íbúðalána að meðaltali brenni upp. Það er um það bil það sem er á dagskrá í þessari aðgerð. Ef niðurfærsla höfuðstólsins sjálfs er rétt um 70 milljarðar er það tiltölulega fljótreiknað miðað við stabbann í heild, verðtryggð íbúðalán í heild, að við erum komin niður undir 5% niðurfærslu höfuðstóls að meðaltali. Einhver heimili fá 13% en önnur fá 0 eins og gengur.

Það er svo önnur saga sem ég ætla tímans vegna ekki að fara langt út í, en auðvitað er mörgum spurningum ósvarað um félagsleg og efnahagsleg áhrif þessara aðgerða ef út í þær verður farið. Það á allt saman að koma hér betur skilgreint í frumvörpum til þingsins eftir áramót. Það má segja að tekjuöflunin og heimild til útgjalda sé eðli málsins samkvæmt í raun bundin þeim skilyrðum að hún verður ekki nýtt fyrr en sett hafa verið lög og nauðsynlegar lagabreytingar átt sér stað varðandi aðgerðir. Þar af leiðandi gefst eitthvað meiri tími til að skoða það, en ég hef auðvitað miklar efasemdir um að þetta sé skilvirk aðgerð, skilvirk og félagslega réttlát ráðstöfun opinberra fjármuna ef þeir eiga að koma til á annað borð.

Ég held reyndar að það sé grundvallarmisskilningur í sjálfum grunni aðgerðarinnar þegar menn nálgast þetta út frá forsendubresti sem menn afmarka innan mjög þröngs tímabils og segja að vegna verðbólgu umfram hækkunar launa eða fasteignaverðs á tilteknu tímabili frá 2008 eða 2007 til 2010 þá skuli þetta leiðrétt svona og svona. En það er hvorki horft lengra aftur né til stöðunnar eins og hún er aftur orðin núna, til dæmis með hækkandi fasteignaverði.

Þaðan af síður er haft í huga að á löngu árabili þar á undan var þessi „forsendubrestur“ með öfugum formerkjum. Það er þannig. Á alllöngu árabili hækkaði neysluverðsvísitala minna en bæði launavísitala og fasteignaverð. Væru menn sjálfum sér samkvæmir mundu menn viðurkenna að það væri forsendubrestur í hina áttina þar sem menn hefðu hagnast á því á löngu árabili að lánin þeirra hækkuðu minna en laun og fasteignir. En það á víst ekki að taka með.

Þetta leiðir til þess að margir munu fá mikla úrlausn og heilmikla óvænta lækkun á höfuðstól verðtryggðra lána sinna sem sennilega hefur aldrei hvarflað að þeim að þeir ættu von á, t.d. þeir sem tóku verðtryggð lán einhvern tímann á síðasta áratug síðustu aldar og borga af þeim og borga þau niður. Þegar maður lítur yfir það í löngu sögulegu samhengi var þróunin hagstæð á löngu árabili eins og ég segi, bæði laun og fasteignaverð hækkuðu umfram þá vísitölu sem lánin taka uppfærslu gagnvart.

Það er hins vegar rétt að ákveðinn hópur varð fyrir forsendubresti ef við viljum kalla hann það, þ.e. verðbólguskotið frá árunum 2007–2010 skrúfaði upp lánin umtalsvert umfram launaþróun og fasteignaverðsþróun á því tímabili. Þannig að þeir sem lentu í því að taka lán eða kaupa íbúð, sérstaklega fyrstu íbúð, á akkúrat þeim árum sitja uppi með skell, það er rétt. En það er tiltölulega auðvelt að afmarka það og reikna það út hvar á kúrfunni þeir liggja og hvaða árabil og hópar það eru. Auðvitað væri augljóslega „réttlátast“, ef eitthvað er hægt að kalla réttlæti í þessu, að endurreikna lánin út frá tilteknum gefnum formúlum eða parametrum sem tækju mið af þessu. Það er miklu minni aðgerð, skilar miklu skilvirkar til þeirra sem mest eiga rétt á niðurfærslu á höfuðstól. En þessi flata nálgun er mjög dýr og óskilvirk. Það er sjálfgefið að fjöldi fólks, heimila, sem er ekki í neinum vandræðum með sín lán og varð ekki í sjálfu sér fyrir neinum sérstökum forsendubresti, af því hann liggur utan þessa tímabils með sínar lántökur, fær líka færðan niður höfuðstól. En á sama tíma munu margir aðrir í miklum erfiðleikum ekki fá neitt. Alls ekki neitt. Það er að byrja að renna upp fyrir mörgum. Að loforðið mikla sem margir skildu bara eins og að færa ætti niður öll verðtryggð lán, alla vega með veði í húsnæði, um 20%, það er nú orðið eitthvað annað.

Alls konar misskilningur var í gangi í þessu. Til dæmis hafa ekki allir áttað sig á því að auðvitað verður þessi niðurfærsla bundin við íbúðalán í skilningnum lán sem stofnar rétt til greiðslu vaxtabóta. Það er ekki nóg bara að hafa verðtryggt lán með veði í húsnæði ef það lán var tekið án nokkurra tengsla við íbúðakaup eða byggingu húsnæðis. Þá stofnar það ekki rétt til greiðslu vaxtabóta og er ekki íbúðalán í þeim skilningi. Það virðast margir því miður hafa haldið það. Slíkar voru væntingarnar sem kyntar voru upp með hinum dæmalausu loforðum vorsins.

Efnahagslegu áhrifin af þessari aðgerð eru hins vegar í tvennum skilningi mikið áhyggjuefni, þ.e. annars vegar að ef farið verður í þessa aðgerð með ráðstöfun opinberra fjármuna, það er það sem er á dagskrá núna, það er ríkið sem á að borga þessa aðgerð, þá er eins gott að hún heppnist og étist ekki upp í aukinni verðbólgu og auknum óstöðugleika á næstu missirum þar á eftir. Þá væri nú til lítils lagt af stað. Svo er það auðvitað bara sjálfstætt áhyggjuefni út frá hagstjórn í landinu, hvernig hún mun ganga og takast.

Seðlabankinn gefur í skyn að hann kunni að þurfa að auka aðhald peningastefnunnar. Á mannamáli þýðir það að hækka vexti, sem væri náttúrlega ekki góð sending fyrir okkur inn í okkar skulduga hagkerfi þar sem við þyrftum miklu frekar á hinu gagnstæða að halda, ef efnahagslegar aðstæður leyfðu það, að vextir væru hér lágir og reynt að greiða götu þess að fjármagnið færi í umferð og ynni fyrir sér.

Þetta verður allt saman að skýrast betur þegar þar að kemur, virðulegur forseti, og við fáum tíma til að ræða það hér eftir áramót.

Það er auðvitað ekkert hægt annað á þessu stigi mála en hafa fullkominn fyrirvara á því sem snýr að þessari aðgerð eins og málin standa. Þó er hún að koma hér nánast án umræðu inn í fjárlög í þeim skilningi að útgjaldaheimildin verður stofnuð og tekjurnar voru hér ákveðnar í atkvæðagreiðslu í morgun.

Ég vona að hæstv. ríkisstjórn hafi nú lært svolítið af haustinu, enda er hún ný og eðlilegt að menn þurfi að skólast. Það er búið að ganga á ýmsu. Í fyrsta lagi þurfti ríkisstjórnin að biðja um lengri tíma til að koma fram fjárlagafrumvarpi og bar við annríki í kringum kosningar. Gott og vel. En ef þær verða nú ekki á næsta ári, nema sveitarstjórnarkosningarnar, ættu þær ekki að réttlæta annað en að fjárlög kæmu hér aftur fram næsta haust á réttum tíma, viku af september eða svo, og þinginu gæfist aðeins rýmri tími til að fjalla um málin. Vonandi koma þá líka fjáraukalög ekki fram í desemberbyrjun, eða hvenær það nú var, heldur á tilskildum tíma með fjárlagafrumvarpinu. Enn betra væri auðvitað að við værum þá komin með málin í farveg nýrra fjárreiðulaga, eða laga um opinber fjármál, sem fjármálaráðherra hefur margboðað að hann hyggist leggja hér fram.

Varðandi skuldaaðgerðirnar á nýjan leik er auðvitað ekki hægt að sleppa því að nefna þar hlut sveitarfélaganna. Það vekur mikla athygli að ríkisstjórnin ákveður einhliða, með útfærslu þessara aðgerða, að sveitarfélögin leggi þar mjög mikið af mörkum, þ.e. þau bæði tapi talsverðum tekjum í núinu og síðan gríðarlega miklum framtíðarskatttekjum í gegnum þann hluta aðgerðanna sem tengist greiðslu óskattaðs séreignarsparnaðar inn á höfuðstól eða sparnaðarreikninga sem aðrir geta tekið upp í húsnæðisöflunarskyni.

Ég held að líklegt tekjutap ríkis og sveitarfélaga vegna þeirrar aðgerðar, ef hún yrði 70 milljarðar að umfangi, eins og talað er um að geti orðið, sé stórkostlega vanreiknað. Það eru greinilega á milli 30 og 40 milljarðar sem þar með er í raun reikningur sendur inn í framtíðina. Börnin okkar og barnabörnin koma til með að bera þetta, í formi meiri skattgreiðslna þá eða minni tekna í ríkissjóð og aftur minni þjónustu, hvernig sem það nú verður. Þannig er að hluta til verið að skutla þessu inn í framtíðina og ætla öðrum að borga brúsann eins og stundum áður hefur gerst, herra forseti.