143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:48]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú sér fyrir endann á fjárlagagerðinni fyrir árið 2014. Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna í fjárlaganefnd fyrir ánægjulega vinnu og lýsi því hér að fjárlög 2014 marka mikil tímamót því að skuldasöfnun ríkisins er stöðvuð.

Við höfum forgangsraðað í þágu heilbrigðis. Hér hefur verið tekinn upp bankaskattur sem er mjög mikið gleðiefni en fyrri stjórnvöld treystu sér ekki til að gera það. Það eru mörg nýmæli í þessu frumvarpi, sem verður brátt að lögum, sem ber að fagna.

Ég held að allir finni og sjái að hér er ný ríkisstjórn tekin við, ríkisstjórn sem hefur breytt kúrsinum í íslensku samfélagi. Það er vel.

Ég kem ekki til með að fara í atkvæðaskýringu, virðulegi forseti, vegna þess að þær breytingartillögur sem við erum nú að fara með fram til samþykktar eru allar frá meiri hlutanum. Ég bendi þingmönnum á þskj. 450, á þeim tillögum er öll fjárlaganefndin. Þar eru meðal annars þau mál sem var samið um á milli minni hlutans og meiri hlutans til að þinglok gætu orðið. Þetta liggur svona fyrir, engin breytingartillaga er frá minni hlutanum að öðru leyti en því sem allir eru sammála um þannig að það er óþarft að fara í frekari atkvæðaskýringar.

Við horfum björt til framtíðar, hér hefur náðst mikill árangur til hagsbóta bæði fyrir heimilin og landsmenn alla og með þessum orðum óska ég öllum gleðilegrar hátíðar.