143. löggjafarþing — 48. fundur,  21. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:02]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er tilgangslaust að setja á innihaldsmiklar ræður um skuldaniðurfellingu á þessum tímapunkti. Hér er um að ræða að ríkisstjórnin vill fá heimild til að ráðstafa á næsta ári gríðarlegum fjármunum. Við fengum því framgengt í samningum milli formanna flokkanna fyrir þinglok að inn í þingið kæmi frumvarp sem mundi ráða þeirri úthlutun til lykta.

Það er ekkert ljóst með hvaða hætti hún verður og við sitjum því hjá við afgreiðslu þessarar heimildar, enda liggur ljóst fyrir að hingað mun koma frumvarp og við munum vilja hafa á það áhrif með hvaða hætti þeim fjármunum sem þar er um að tefla verður ráðstafað. Frumvarpið kemur hingað og við bíðum frekari ákvarðana þar til þar að kemur.