143. löggjafarþing — 49. fundur,  14. jan. 2014.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

237. mál
[16:33]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið mjög góð og málefnaleg. Á þessu máli eru auðvitað skiptar skoðanir. Það er rétt, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að það er meiri samhljómur um að fara út í að jafna kostnað við dreifingu raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis en oft hefur verið. Það var svo sem fróðleg söguskýring og sagnfræðiyfirferð hv. þingmanns sem man þessi mál lengra aftur en við mörg hér í þinginu.

Það er alveg rétt og þetta er ekki einfalt. Hér hafa komið ýmis sjónarmið, þ.e. sjónarmið þeirra sem eru í þéttbýlinu, sem andmæla því að á þéttbýlisbúa séu lagðar auknar álögur til að standa undir kostnaði við þessa jöfnun. Ég skil það mætavel. En þetta varð niðurstaðan eftir mikla yfirlegu.

Hv. þm. Kristján Möller spurði hver sinnaskipti mín hefðu verið frá því að ég var meðflutningsmaður við ágætt frumvarp samflokksmanns míns, Einars K. Guðfinnssonar, þar sem önnur leið var farin. Við því er einfalt svar eins og þingmaðurinn þekkir: Með því að gerast meðflutningsmaður á þingmannamálum er maður í meginatriðum að lýsa stuðningi við þá stefnu sem þar kemur fram þó að þar séu kannski einstök ákvæði eða atriði sem maður kysi að hafa öðruvísi. Ég hef verið fylgjandi því að jafna þennan aðstöðumun, eins og ég kýs að kalla það, milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það var helsta ástæða þess að ég var meðflutningsmaður á því ágæta frumvarpi.

Í þessu frumvarpi er tekið á mismun á kostnaði við dreifingu rafmagns á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Aðgerðin er þannig tilfærsla á fjármunum á milli dreifiveitna vegna viðskiptavina dreifiveitnanna frá þéttbýli yfir í dreifbýli. Stóriðjan er ekki viðskiptavinur dreifiveitnanna og er þar að auki með orkusölusamninga til langs tíma sem ég hef ekki áhuga á að fara inn í, hvað svo sem síðasta hæstv. ríkisstjórn gerði með orkuskattinum sem hér hefur komið til tals. Vegna spurninga um afdrif þess skatts get ég vitnað í það sem fjármálaráðherra hefur sagt opinberlega að ekki standi til að framlengja þann skatt, hann verði látinn renna sitt skeið á enda. Mér þótti reyndar áhugavert að heyra að þessi tímabundni skattur, sem var kynntur þannig á sínum tíma, var það kannski ekki í huga fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra miðað við það sem fram kom hér áðan vegna þess að þá greindi hv. þingmaður frá því að fyrirætlanir hefðu verið um að nota þann skattstofn í það sem við erum að fara í hér núna. En það er önnur saga.

Í skýrslunni sem hefur verið hér til umræðu og var ágæt var lögð til leið sem hefur verið farið í ítarlega, 10 aura á alla notendur, þar var húshitunin líka tekin inn í, sem er annað viðfangsefni. Hér erum við að fjalla um kostnaðinn við dreifinguna á rafmagninu. Húshitunin og niðurgreiðsla húshitunar er annað mál þó að auðvitað séu mörkin óljós, vegna þess að þetta kerfi er allt óskaplega flókið. Þegar ein stærð er færð til hefur það áhrif á aðra stærð. Í þessu máli hefur það þau áhrif á húshitunina að þörfin fyrir niðurgreiðslu lækkar þannig að kostnaðurinn við niðurgreiðslu til húshitunar gæti lækkað en það gefur svigrúm til að nota þá fjármuni til að vega á móti annarri starfsemi sem hreyfist til í þessu sem er þeir rafmagnsnotendur í þéttbýli sem eru líka á köldum svæðum. Þeir fá þá aukaniðurgreiðslu til þess að þeir komi út á sléttu hvað raforkukostnaðinn varðar. Síðan er húshitunin annað viðfangsefni og ég get greint frá því að við erum að vinna að þeim málum til framtíðar. Besta leiðin til að draga úr þörf á niðurgreiðslu til húshitunar er að fjölga hitaveitum og þess vegna er ánægjulegt að sjá Hitaveitu Skagastrandar vera nýtekna til starfa. Eins og þingmenn hafa komið hér inn á í umræðunni er vinna við leit að heitu vatni að sjálfsögðu í gangi og það mundi muna miklu, eins og hér kom fram, ef þéttbýlisstaður eins og Höfn í Hornafirði kæmi inn í það kerfi.

Auðvitað er það besta leiðin, en það er önnur umræða.

Ég veit að þetta er mál sem nefndin mun taka til gagngerrar skoðunar. Ég vona að hægt verði að vinna þetta tiltölulega hratt vegna þess að það væri gott að fá niðurstöðu í þetta mál. Ég treysti því að kallað verði eftir ólíkum sjónarmiðum og ef nefndinni sýnist svo að gera þurfi breytingar á frumvarpinu vona ég að þær verði allar til bóta þannig að við getum fengið sem mesta sátt um þetta. Ég fagna því að almenni tónninn í þessari umræðu var jákvæður og vonast til þess að við getum séð breytingar á þessum lögum innan tíðar hér á Alþingi.