143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Sá er hér stendur hóf umræðu í haust um innflutning á alifugla- og svínakjöti til landsins, merkingu þess og verðlagningu. Ég vil segja úr þessum stól að ég þakka viðbrögð þeirra sem standa að innflutningi og framleiðslu við þeim athugasemdum sem ég gerði úr þessum stól á sínum tíma. Framleiðendur hafa tekið upp betri og skilmerkilegri merkingar á íslenskri framleiðslu og þá væntanlega þeirri erlendu líka og ég fagna mjög hvað þeir voru jákvæðir þegar þeir hittu mig og við áttum ágætisspjall saman um þessa grein sem er mjög mikilvæg fyrir mig og auðvitað okkur öll.

Ég hvet aðila verslunar og þjónustu til að halda áfram að upprunamerkja vörur án þess endilega að lög og reglur kveði á um það. Það er mjög mikilvægt í neytendavernd allri. Um leið hvet ég ráðherra til að flýta lagasetningu um upprunamerkingu á innfluttum vörum.

Ljóst er að Samtök verslunar og þjónustu gerðu verulegar athugasemdir við ummæli mín á sínum tíma. Við ræddum þau ummæli, ég og forsvarsmaður þeirra samtaka. Mig langar af því tilefni að varpa því fram við þessa aðila hvort þeir komi nú ekki fram og skýri þá fyrir okkur hvernig standi á því að vörur sem eru fluttar inn á frjálsum markaði án tolla séu ekki á sambærilegu verði í Evrópu og hér eða hvort svo sé. Vil ég þá spyrja um pasta, matarolíu, kaffi, sykur, hveiti og kornvörur. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vita hvort við fáum þessar vörur á sambærilegu verði og í Evrópu.

Það er aðeins einn aðili í öllu þessu máli sem hefur staðið fyrir utan það allt saman, það eru Neytendasamtökin. Þau eru eini aðilinn sem tapaði á þessu máli með hjásetu sinni og þögn.