143. löggjafarþing — 50. fundur,  15. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna svars frá hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem dreift var hér við upphaf þingfundar í gær eftir jólaleyfi. Fyrirspurnin kom fram fyrir allmörgum vikum og varðar aðgerðir í skuldamálum heimilanna.

Þar er spurt hvert þeir fjármunir sem ráðstafa á til niðurfærslu á skuldum muni renna, þ.e. þeir 80 milljarðar kr. sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja úr ríkissjóði. Fram kemur í svarinu að ríkisstjórnin hefur ekki hugmynd um hvert þessir 80 milljarðar eiga að renna. Í svarinu stendur einfaldlega: Við vitum það ekki, þ.e. ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að ráðstafa 80 milljörðum úr ríkissjóði í beinhörðum peningum og hún hefur ekki hugmynd um hvert þeir peningar fara, hvort og að hve miklu leyti þeir renna til fólks sem á við greiðsluvanda að etja, hvort og að hve miklu leyti þeir renna til skuldsettra heimila, heimila með neikvætt eigið fé eða að hve miklu leyti þeir renna til fólks sem greiðir auðlegðarskatta eða bara græddi rosalega mikið á hruninu og varð ekki fyrir neinum forsendubresti.

Núna, einum og hálfum mánuði eftir að ákvörðunin var tekin, hefur ríkisstjórnin augljóslega ekki heldur aflað upplýsinga um það hvert þessir peningar eru að fara. Það er býsna alvarlegt vegna þess að vilji þingheims og þjóðarinnar stendur auðvitað til að ráðstafa þessum fjármunum þannig að þeir hjálpi skuldugu fólki sem á í erfiðleikum. Það verður að komast til botns í því hvert þessir peningar eru að fara til að sjá þá hvaða vandi stendur eftir. Öðruvísi verður þeim ekki hjálpað sem þessar aðgerðir ná ekkert til. Ef engar upplýsingar liggja fyrir um hverjir eigi að njóta þessara peninga vitum við ekkert hverjir (Forseti hringir.) verða áfram í vanda eftir það og við höfum engar forsendur til að hjálpa þeim hér á Alþingi. Þess vegna hvet ég til þess að þessara upplýsinga verði aflað þegar í stað, enda algerlega fáheyrt og fáránlegt að eyða 80 milljörðum kr. úr ríkissjóði án þess að vita hvert þeir renna.