143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

hækkun skráningargjalda í opinbera háskóla.

[10:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er sá ofboðslegi veikleiki í þessu svari hæstv. menntamálaráðherra að háskólarnir nutu ekki hækkunarinnar nema að sáralitlu leyti vegna þess að opinber framlög til þeirra voru skert á móti. Þess vegna eiga þessi rök að sjálfsögðu ekki við. Reyndar má deila um það hvort ekki hafi verið gengið lengra en lög gera ráð fyrir í tilviki Háskóla Íslands eins og ég fór rækilega yfir við umræðuna um fjárlög fyrir áramót. Það var rúmlega verðbólguhækkun ofan á rauntölurnar úr bókhaldi Háskóla Íslands frá árinu 2012, eins og má fara betur yfir ef hæstv. menntamálaráðherra hefur áhuga á. Það má færa fyrir því sterk rök að hækkunin í tilviki Háskóla Íslands sé á gráu svæði miðað við lögin um innritunargjöld.

Vegna þess að háskólarnir nutu þessa ekki í raunverulegum hækkuðum framlögum, raunverulegum auknum fjárveitingum á næsta ári, er kjörið tækifæri til að draga þetta til baka eða bakka að minnsta kosti með það og hækkun innritunargjaldanna á komandi árum gæti þá raunverulega nýst háskólanum ef opinber framlög (Forseti hringir.) til þeirra eru ekki skert á móti.