143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:32]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kom ekki inn á það í fyrri ræðu varðandi merkingar á matvælum, mér finnst sú krafa svo sjálfsögð að varla þurfi að hafa orð á henni, þetta er eitthvað sem Neytendasamtökin hafa barist fyrir um árabil og mörg stjórnvöld hafa haft tækifæri til að gera eitthvað í því máli. Það stendur vonandi til bóta núna.

Mig langar að koma aðeins inn á verndarstefnuna sem í rauninni hefur verið sett fram eða er alla vega lögð fram í nafni matvælaöryggis, að það þurfi að vernda neytendur því að þeir muni hamstra hættulegt innflutt kjöt ef samkeppnin er of mikil. Ég kann aldrei við þegar gefið er í skyn að neytendur hafi ekki vit fyrir sjálfum sér. Ef stjórnvöld tryggja neytendum allar upplýsingar sem máli skiptir taka neytendur rétta ákvörðun. Hvað gerðist þegar tollar á grænmeti voru lagðir af? Íslendingar velja íslenska framleiðslu. Hún er dýrari, en þeir gera það samt. Við verðum að treysta neytendum. Mér þykir miður að það sé ekki gert í meira mæli.

Málið er að verndarstefnan er til að tryggja innlenda framleiðslu. Hún er ekki til að vernda neytendur. Við skulum segja það eins og það er. Síðan kemur í ljós að innlendir framleiðendur flytja inn kjöt og setja í framleiðsluna sem er reyndar ekki hættulegra en svo að neytendum hefur ekki orðið meint af, svo ég viti, en vissulega eru þeir að villa um fyrir fólki. Það er alvarlegt.