143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

framlög til menningarsamninga.

[15:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það kann að vera að í þeirri uppskiptingu sem núverandi hæstv. ríkisstjórn gerði á atvinnuvegaráðuneytinu megi segja að þetta sé á hinu borðinu þegar ráðherrar atvinnu- og nýsköpunarmála tala, þ.e. að málið sé frekar hjá iðnaðarráðherra. Ég vil samt leyfa mér að halda því fram að í allri þessari umræðu hafi þetta hin síðari ár komið úr atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Eins og ég sagði áðan þá hafa þeir fulltrúar sem gengu á fund þingmanna Norðausturkjördæmis lýst miklum áhyggjum af þeim hluta af þessum samningi sem snýr að menntamálaráðherra, sem vonandi gefst tækifæri til að ræða sem fyrst við þingmannahóp. En ég hvet hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að ræða það við hinn ráðherrann sem tilheyrir atvinnuvegaráðuneytinu sem slíku, eins og þetta er gert hjá okkur í stjórnsýslunni, og hvetja hann til dáða. Þessari óvissu verður að eyða sem allra fyrst og þeir peningar sem eiga að koma frá þessum ráðherrum — við skulum þá hafa þá í fleirtölu — verða að skila sér í það. Það á þá bara eftir að vinna menntamálaráðuneytið, mér sýnist það vera alveg fullkomin vinna á næstu dögum.