143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

Fiskistofa og vinnubrögð stofnunarinnar.

[14:23]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni, og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mér er almennt frekar illa við að fjalla um einstakar stofnanir en ég er tilbúinn að fjalla svolítið um stofnanir sem fara almennt með mikið vald, eftirlitsvald, rannsóknarheimildir og heimildir til að leggja á mjög íþyngjandi viðurlög. Það vald er alltaf vandmeðfarið, það er afskaplega mikilvægt en vandmeðfarið. Ef rétt reynist, sem fram kemur hjá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni í þeim einstöku málum sem hér eru, sem ég veit auðvitað ekki hvort séu alveg sannleikanum samkvæmt eða nákvæmlega rétt, en ég geri auðvitað ráð fyrir því, þá er ábyrgð Fiskistofu mikil.

Við eigum, af því að ákvarðanirnar eru svona íþyngjandi og valdið mikið og mikið undir hjá þeim sem þarna eiga í hlut, að endurskoða reglurnar, endurskoða heimildirnar og velta líka fyrir okkur ábyrgð stofnunarinnar sem slíkrar. Eru menn algjörlega ábyrgðarlausir þar? Eru menn ábyrgðarlausir ef þeir fara ekki eftir stjórnsýslulögum og valda mönnum kannski miklu tjóni með ákvörðunum sínum og málsmeðferð? Geta menn þar bara sagt: Úps?

Þess vegna held ég að við í þinginu eigum ekki bara að endurskoða heimildir Fiskistofu heldur allra stofnana sem fara með vald af þessu tagi.