143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[15:42]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að gera góða grein fyrir PISA-skýrslunni.

Ég vil halda því fram að á Íslandi sé gott skólakerfi sem hafi innan sinna raða góða nemendur, sem eru misjafnlega á vegi staddir og hafa misjafnlega hæfileika á hinum ýmsu sviðum. Innan skólakerfisins starfar jafnframt hæft starfsfólk, bæði kennarar og aðrir starfsmenn.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið hefur staða íslenskra nemenda versnað verulega frá árinu 2009. Reyndar kemur fram að nemendum hafi hrakað um því sem nemur hálfu skólaári frá því að mælingar hófust á vegum PISA hér á landi. Í skýrslunni kemur einnig fram að Ísland ásamt Svíþjóð er með lökustu frammistöðu allra Norðurlandanna. Ég velti því fyrir mér hvers vegna er staðan þessi. Hvað er að í okkar góða skólakerfi? Hvers vegna hrakar nemendum í námi? Ég held að engin ákveðin svör séu við þeim spurningum og ég fagna því ef farið verður í rannsóknir og aukið við þær, orsakir kannaðar og brugðist við.

Ég er með ýmislegt sem ég velti fyrir mér þegar ég var að skoða skýrsluna. Getur verið að það hafi eitthvað að segja að stöðugt er verið að finna upp nýjar og breyttar kennsluaðferðir sem eiga að vera það eina sanna og eina nýja og eina rétta sem nái til nemenda? Stundum þegar þetta gerist er gömlum kennsluaðferðum svolítið ýtt til hliðar og unnið með hið nýja.

Ég tel eftir að hafa unnið í grunnskóla í nokkur ár að gott sé að nýta bæði gamalt og nýtt, nýta það góða og það sem reynst hefur vel úr öllum kennsluaðferðum. Þannig tel ég að við náum að koma á móts við ólíka getu, ólík áhugasvið og ólíkar þarfir nemenda.

Ég velti því einnig fyrir mér vegna þess að undanfarin ár hefur vinnuálag kennara aukist. Það er stöðugt verið að auka við verkefni á undirbúningstíma grunnskólakennara og minni og minni tími verður til þess að undirbúa kennslu. Ég vil taka fram að mjög gott starf er unnið í grunnskólum landsins.

Getur haft áhrif að nemendur eru misjafnlega vel upplagðir og suma daga er erfiðara að sýna hvaða hæfileika og þekkingu maður býr yfir? Við verðum þó að horfa til þess að sá punktur getur líka átt við löndin sem við berum okkur saman við.

Í niðurstöðum PISA-rannsóknarinnar kemur jafnframt fram að piltum hefur farið verulega aftur í lesskilningi. Ég hef miklar áhyggjur af þeirri þróun. Ég velti því fyrir mér, bæði með drengi og stúlkur, hvort leggja eigi meiri áherslu á lestur eingöngu fyrstu árin. Það er mjög mikilvægt nemendur nái góðum tökum á lestri því að mikill hluti námsins sem á eftir kemur byggist á lestrarfærni. Tökum sem dæmi að stærðfræði á miðstigi byggist að miklu leyti upp á orðadæmum sem krefjast lesskilnings.

Í könnuninni kemur einnig fram að mikill munur er á frammistöðu innfæddra og innflytjenda í öllum greinum. Ég velti fyrir mér hvort skólakerfið komi til móts við innflytjendur og veiti þeim kennslu á móðurmáli þeirra, en rannsóknir hafa sýnt fram á að eftir því sem nemendur eru sterkari í móðurmáli sínu þeim mun betur gengur þeim að læra á nýju tungumáli, á íslensku í þessu tilviki.

Í niðurstöðum könnunarinnar er einnig að líta á jákvæðar niðurstöður og ég ætla að enda umræðu mína um PISA á þeim nótum. Þar kemur fram að enn þá er mikill jöfnuður á Íslandi og munur á milli skóla er hvergi minni en hér á landi. Mér finnst það jákvætt þegar kemur að grunnskólakerfinu því að ég vil að nemendur hafi jafnan aðgang að námi óháð búsetu og efnahag foreldra eða forráðamanna.

Einnig kemur fram að skólabragur og viðhorf nemenda til náms hefur batnað verulega frá því sem áður var. Það finnst mér einstaklega ánægjulegt, en mikilvægt er að nemendum líði vel í skólanum og líti til náms með jákvæðum huga. Það auðveldar þeim að takast á við námið og auðvitað viljum við að börnunum okkar líði vel þar sem þau dvelja stóran hluta dags.

Umfram allt eigum við að vera duglega að ræða á jákvæðan hátt um skólakerfið. Það skiptir gríðarlega miklu máli varðandi viðhorf nemenda til skólans síns og námsins. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft.