143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum.“

Einnig kemur fram í stjórnarsáttmálanum að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði. Er það meðal annars vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins.

Í lok nóvember voru skuldaniðurfellingar ríkisstjórnarinnar kynntar. Eins og margir vita er um að ræða bæði beina niðurfellingu og skattalega aðgerð. Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð ánægð með þessar aðgerðir, sérstaklega þar sem um er að ræða almennar aðgerðir en ekki sértækar. Ég er ánægð með til hversu stórs hóps aðgerðin nær, hóps sem beðið hefur í rúmlega fimm ár eftir því að forsendubresturinn verði leiðréttur. Ég fer samt ekki í felur með að ég hefði viljað sjá þakið hærra þannig að komið hefði verið meira til móts við einstaklinga og fjölskyldur sem eru í erfiðri stöðu.

Þessi aðgerð truflar mig alls ekki þótt hún trufli einstaka þingmenn. Ég vona að skuldaaðgerðirnar komist í gegnum þingið áfallalaust því að einstaklingar og fjölskyldur eru fyrir löngu síðan farin að bíða eftir almennum aðgerðum.

Það sem truflar mig hins vegar eru orð þeirra sem tala gegn almennum aðgerðum þegar þeir halda því fram að einstaklingar og fjölskyldur hafi hagnast á hruninu. Það truflar mig og ég er hissa ef það truflar ekki aðra þingmenn.