143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Loðnan er brellinn fiskur. Nú er búið að setja byrjunarkvóta á loðnu, 85 þús. tonn, sem er 320 þús. tonnum minna en á sama tíma í fyrra. Það mun muna þjóðarbúið gríðarlega miklu í afurðaverði auk þess sem mikil lækkun er á mjöli og lýsi, u.þ.b. 25–30%. Það mun þýða verðmætalækkun um 25 milljarða, en stundum birtist loðnan í stórum flákum fyrir norðan og norðaustan land og hverfur svo algjörlega, en við höfum verið svo heppin undanfarin ár að síðan kemur hún aftur inn á grunnin fyrir austan í enn meira magni en áður þannig að við skulum ekki horfa mjög svartsýn inn í vertíðina.

Það er aftur á móti áhyggjuefni að eins og staðan er skera veiðileyfagjöldin mjög harkalega inn í tekjur útgerðarinnar með þessu. Fram kom í viðtali í morgun að þau eru u.þ.b. 75% af framlegð fyrirtækjanna um þessar mundir, sem er auðvitað allt of hátt og við þurfum að skoða það.

Ég hef verið þeirrar skoðunar og hef aldrei farið leynt með það að veiðleyfagjöldin þurfa að vera einfaldur reikningsstuðull, prósenta af verðmæti sem hækkar og lækkar eftir því sem afurðaverð hækkar eða lækkar. Það þarf að finna þessa fínu línu og það er verkefni okkar að gera það.

Ég mun á næstunni einnig óska eftir viðræðum við hæstv. sjávarútvegsráðherra Sigurð Inga Jóhannsson og ræða um slægingarstuðul, sem er líka mjög brýnt mál en ég mun nota næsta tíma undir störfum þingsins til þess að gera það.