143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar í framhaldi af því sem ég var að ræða áðan og því sem mér fannst koma fram í máli hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur að sumir bæru ekki hag heimilanna fyrir brjósti að segja að ég tel mig gera það og við vinstri græn. Við höfum viljað fara aðrar leiðir en Framsóknarflokkurinn. Hv. þingmaður talaði mikið um almennar aðgerðir. Við höfum hins vegar talað um að greina þann hóp sem við teljum þurfa á tiltekinni aðstoð að halda því að það er ekki eins og ekkert hafi verið gert fram til þessa, eins og stundum er látið í veðri vaka.

Lánsveðshópurinn varð til dæmis út undan í þeim aðgerðum sem um ræðir, sem núverandi ríkisstjórn ætlar að ráðast í. Ég tel heldur ekki að efnamikið fólk þurfi á neyðaraðstoð að halda og ég tel ekki að skattfé sem við ætlum að útdeila með þeim hætti sem á að gera og framsóknarmenn vilja gera sé eitthvað sem ég get stutt, því að þetta er ekkert annað. Við erum að reyna að bjarga fólki frá erfiðum aðstæðum. Það þurfa ekki allir á því að halda, svo einfalt er það.

Það er víða pottur brotinn, alveg augljóslega. Bankaskatturinn er nífaldaður að sögn formanns efnahags- og viðskiptanefndar sem hefur reyndar orðið mjög margsaga í því máli öllu saman eins og var rakið, en það var til að fjármagna skuldaloforð Framsóknarflokksins á lokametrum fjárlagagerðarinnar. Þetta breyttist svo hratt að fólk náði ekki að halda utan um það. Það var mikill flýtir á allri vinnu og auðvitað veltir maður fyrir sér trúverðugleika við meðferð skatttekna fólks þegar svona lagað er gert og formaðurinn nær ekki einu sinni sjálfur að halda utan um hverju hann stendur fyrir. Ég spyr í framhaldinu: Er það þannig og ætti það að vera þannig að formaður efnahags- og viðskiptanefndar bæði þjóðina afsökunar á því að hafa sagt opinberlega ósatt og meira að segja verið tvísaga strax eftir fundinn á mánudaginn í viðtali sem hann átti annars vegar við Vísi og hins vegar við mbl.is?