143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Svo virðist sem þeir hópar sem minnst bera úr býtum um hver mánaðamót, og áttu aðild að þeim kjarasamningum sem ASÍ og SA gerðu með sér í lok síðasta árs, séu að fella þá samninga.

Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að leggja lítið af mörkum til að bæta kjör þeirra lægstlaunuðu í tengslum við þessa samninga og þetta var sérstakt umræðu- og umfjöllunarefni hér við lok afgreiðslu fjárlaga í desember sem leið. Við gerð breytinga á skattkerfinu í þeirri umræðu varð ríkisstjórnin ekki við áskorun stjórnarandstöðunnar og launþegahreyfingarinnar um að leggja höfuðáherslu á að bæta kjör þeirra lægstlaunuðu. Á sama tíma hækkaði ríkisstjórnin fjölda gjalda sem tefldu verðlagsforsendum samninganna í tvísýnu. Það er um að ræða gríðarlegan óróleika víða í samfélaginu.

Á sama hátt og ríkisstjórnin vildi hreykja sér af því að hafa náð kjarasamningum fyrir áramót, eða að þeir hafi náðst, hlýtur hún líka að horfast í augu við stöðuna á vinnumarkaði ef þetta verður raunin. Hver ber þá ábyrgð á því? Óstöðugleikinn er víða, það hefur verið gríðarlega mikið rugl hér í kringum frískuldamarkið og það hvernig menn rökstyðja mál sitt. Hver veit hvað er í pípunum að því er varðar loforð ríkisstjórnarflokkanna um 240 milljarða í kosningabaráttunni sem áttu ekki að vera á kostnað ríkissjóðs til skuldalækkunar, en eru nú að verða 20 milljarðar á ári, allt á kostnað ríkissjóðs.

Umræða er að verða hér mjög öflug undir þessum dagskrárlið innan ríkisstjórnarflokkanna, milli ríkisstjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hver er eiginlega staðan að verða? Er ágreiningurinn víðar? Er hann inni í þingflokkum beggja stjórnarflokkanna? Hér er verið að fjalla um allar þessar aðkallandi spurningar sem heimilin í landinu, og líka heimili leigjenda og námsmanna, þurfa að fá svör við í nánustu framtíð, (Forseti hringir.) á næstu vikum og dögum. Við annað verður ekki unað.