143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[16:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil einnig þakka fyrir umræðuna eins og málshefjandi gerði hér og fyrir það að vekja athygli á mikilvægu máli fyrir tekjuöflunarkerfi ríkisins en líka almennt fyrir skattumhverfið, fyrir atvinnustarfsemina og fyrir einstaklinga í rekstri vegna þess að reglurnar geta vissulega einar og sér verið þess valdandi að eftirlitið reynist erfiðara og þar með öll innheimta skatta í kjölfarið.

Hér hefur átakið Allir vinna verið nefnt. Það væri víða hægt að koma við. Það býr t.d. til sérstakt flækjustig að vera með mjög mikið bil milli virðisaukaskattsþrepanna þar sem að sá sem kaupir mjólk og snúð í bakaríi og gengur með vörurnar út úr bakaríinu á að greiða hærra virðisaukaskatt í hærra þrepi en sá sem sest niður með kaffibolla og borðar næsta snúð í glerborðinu. Hann ætti almennt að greiða virðisaukaskatt á þjónustu sem veitt er eins og veitingaþjónustu. Eftirlit með því hvort fyrri snúðurinn var seldur í 7% eða 25% þrepinu getur reynst alveg gríðarlega erfitt.

Sama gildir um þá starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti eins og víða í ferðaþjónustunni þar sem ýmislegt er undanþegið virðisaukaskatti. Bara það að fá slíka starfsemi skráða inn í virðisaukaskattskerfið getur eitt og sér einfaldað eftirlit og virkað sem sérstakur hvati til að skila öllum sköttum og skyldum af sér.

Hér hefur verið víða komið við. Við höfum líka verið að ræða bótasvikin í þessari umræðu, sem er málaflokkur sem þörf er á að veita sérstaka athygli. Bótasvik í almannabótakerfinu eru sérstaklega skaðleg og draga úr getu stjórnvalda til að styðja þá sem á því þurfa að halda og rétt eiga á. (Forseti hringir.) Heilt yfir hefur þetta verið gagnleg umræða. Ég þakka fyrir hana.