143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og oft vill verða er víða komið við þegar stórt mál er sett á dagskrá. Það hefur verið rætt um afkomuna í dagvöruverslun á Íslandi og rætt um gjaldmiðilinn, sem er svo sem ekkert sérstakur fyrir þessa verslun heldur fyrir allt hagkerfið, en það hefur margt ágætt komið fram. Í versluninni er það einkenni á markaðnum að það eru fáir stórir í lágvöruverðsverslununum. Það hafa þó verið dæmi þess á síðastliðnum tveimur áratugum, svo maður leyfi sér að horfa yfir svo langan tíma, kannski rétt rúmlega, var það ekki 1989 sem Bónusverslunin var stofnuð, lágvöruverðsverslun? Hún byrjaði sem ein verslun, endaði sem risastór keðja og er í dag með mesta veltu allra á íslenska dagvörumarkaðnum. Það er því að minnsta kosti hægt að brjótast inn á þennan markað leggi menn áherslu á atriði sem kaupendur sækjast sérstaklega eftir.

Ég er ekki alveg sammála því sem fram kom í máli nokkurra þátttakenda í þessari umræðu, hv. þingmanna, að íslenskir neytendur séu algjörlega sofandi á verðinum. Mér sýnist að við sjáum sífellt fleiri dæmi þess að neytendur séu ágætlega með á nótunum þegar einstakar verslanir lækka verð og sýna viðleitni, þá eru yfirleitt langar raðir á þeim stöðum. Ég nefndi í fyrri ræðu minni að lágvöruverðsverslanir hafa stóraukið markaðshlutdeild sína á undanförnum árum.

Ef við eigum að taka umræðu um verð í verslun á Íslandi í dag þurfum við að taka allt með. Við þurfum að taka stöðuna á birgjamarkaðnum og innflutningsmálin. Í sumum vöruflokkum er það svo að það eru einn og tveir og þrír birgjar. Það er nú ekki meira en svo, allar verslanirnar versla við sömu tvö og þrjá birgjana. Hvað ætli það séu margir viðskiptavinir dagvöruverslana á Íslandi sem geta útvegað þeim mjólk og mjólkurafurðir? Ætli þeir séu ekki meira eða minna allir að versla við þá sömu? (Forseti hringir.)

Svona væri lengi hægt að telja en aðalatriðið er að okkur takist að vera sammála um aðgerðir sem (Forseti hringir.) tryggja íslenskum neytendum sem allra lægst vöruverð og þar er það ekki eitthvað eitt sem skiptir sköpum. (Forseti hringir.) Stöðugur gjaldmiðill og lágir vextir skipta vissulega máli. Það þarf að fylgjast með eignarhaldinu og veita mönnum aðhald sem starfa (Forseti hringir.) í þessum rekstri og við þurfum að gæta að hindrunum sem stjórnvöld sjálf koma upp (Forseti hringir.) með lögum og reglum sem geta leitt af sér hærra vöruverð.