143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

greiðslur yfir landamæri í evrum.

238. mál
[16:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra laga um greiðslur yfir landamæri í evrum. Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tveggja reglugerða sem fjalla um greiðslur yfir landamæri í evrum, annars vegar ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins EB nr. 924/2009 um greiðslur yfir landamæri í bandalaginu og um niðurfellingu á reglugerð EB nr. 2560/2001 og hins vegar ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins ESB nr. 260/2012, um að koma á tæknilegum og viðskiptalegum kröfum fyrir millifærslur fjármuna og beingreiðslur í evrum, og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 924/2009. Einnig eru í frumvarpi þessu lagðar til smávægilegar breytingar á lögum nr. 120/2011, um greiðsluþjónustu, sem byggjast á athugasemdum frá Fjármálaeftirlitinu sem fer með eftirlit með framkvæmd laganna.

Markmið reglugerðanna er að veita borgurum og fyrirtækjum samræmda, örugga, notendavæna og áreiðanlega greiðsluþjónustu í evrum á samkeppnishæfu verði innan Evrópska efnahagssvæðisins, jafnframt því að tryggja að gjöld vegna greiðslna í evrum yfir landamæri ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins séu hliðstæð því sem gerist vegna greiðslna í evrum innan lands.

Helstu efnisákvæði reglugerðar EB nr. 924/2009 eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er kveðið á um að gjöld sem greiðsluþjónustuveitandi leggur á notanda greiðsluþjónustu fyrir greiðslur í evrum yfir landamæri skuli vera þau sömu og gjöld sem hann leggur á notendur greiðsluþjónustu vegna samsvarandi landsbundinna greiðslna að sömu fjárhæð í evrum.

Í öðru lagi er kveðið á um að til að auðvelda sjálfvirkni greiðslna skuli greiðsluþjónustuveitandi tilkynna notanda um alþjóðlegt bankareikningsnúmer notandans, svokallað IBAN-númer, og auðkenniskóða banka greiðsluþjónustuveitandans eða BIC.

Í þriðja lagi er kveðið á um að aðeins sé heimilt að leggja á viðbótargjöld ef vikið er frá hefðbundinni framkvæmd að beiðni notanda og þá aðeins ef gjöldin eru kynnt notanda með góðum fyrirvara og þau séu samþykkt af honum. Gjöldin skulu vera viðeigandi og í samræmi við kostnað greiðsluþjónustuveitanda.

Í fjórða lagi er heimild greiðsluþjónustuveitanda til að innheimta svokallað marghliða millibankagjald, sem nefnist á ensku „multilateral interchange fee“ eða MIF, vegna beingreiðslna er takmörkuð. Almennt er óheimilt samkvæmt reglugerðinni að innheimta slíkt gjald nema um sé að ræða greiðslur sem af einhverjum ástæðum er illmögulegt að framkvæma.

Helstu efnisákvæði reglugerðar (ESB) nr. 260/2012 eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er gerð krafa um að greiðsluþjónustuveitandi sem aðgengilegur er vegna innlendrar greiðslu, þar með talið beingreiðslu, skuli vera aðgengilegur vegna greiðslna yfir landamæri. Hérlendir greiðsluþjónustuveitendur geta ekki að öllu leyti uppfyllt þessa kröfu sökum gildandi gjaldeyrishafta.

Í öðru lagi er gerð krafa um rekstrarsamhæfni greiðslukerfa sem felur fyrst og fremst í sér að sömu reglur skulu gilda um greiðslukerfi sem greiðsluþjónustuveitendur nota til að framkvæma beingreiðslur eða millifærslur í evrum, óháð því hvort um greiðslu innan lands eða greiðslu yfir landamæri lands er að ræða.

Í þriðja lagi skal við framkvæmd millifærslu fjármuna og beingreiðslufærslu skal nota IBAN-númer til að auðkenna greiðslureikninga. Við sendingu skeyta á milli greiðsluþjónustuveitenda skal form þeirra uppfylla kröfur ISO 20022 XML, eins og það heitir. Þetta er sérstakur staðall.

Í fjórða lagi er bæði viðtakanda greiðslu og greiðanda óheimilt að tilgreina í hvaða aðildarríki greiðslureikningur mótaðila skal vera, að því tilskildu að greiðslureikningurinn sé aðgengilegur í skilningi 3. gr. reglugerðar (ESB) nr. 260/2012.

Í fimmta lagi skal greiðandi skal hafa heimild til að gefa greiðsluþjónustuveitanda sínum fyrirmæli um að takmarka beingreiðsluinnheimtu við ákveðna fjárhæð, tíðni eða hvort tveggja. Greiðandi getur einnig gefið fyrirmæli um að sannprófa skuli hverja beingreiðslufærslu áður en greiðslureikningur er skuldfærður. Auk þess getur hann gefið fyrirmæli um að stöðva beingreiðslur, takmarka þær eða heimila aðeins að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum.

Þá er rétt að fara nokkrum orðum um áhrif tillagna frumvarpsins á útgjöld og rekstur ríkissjóðs. Ekki er talið að frumvarpið hafi nema minni háttar stjórnsýslulegar breytingar í för með sér. Ekki verður því séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér teljandi áhrif á fjárhag ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.