143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vil þakka umboðsmanni Alþingis kærlega fyrir þessa skýrslu. Umboðsmaður heyrir undir Alþingi og á að sinna því hlutverki að vera æðsti réttargæsluaðili fyrir borgarana þegar kemur að því hvort brotið er á borgurum í stjórnsýslunni.

Borgarinn hefur einhver réttindi, honum finnst að stjórnsýslan, annaðhvort með aðgerðum eða aðgerðaleysi, hafi brotið á rétti sínum. Þá getur borgarinn fyrst kært það til æðra stjórnsýslustigs. Umboðsmaður segir hér að þegar borgari leitar réttar síns innan stjórnsýslunnar og kærir aðgerð eða aðgerðaleysi lægra stjórnsýslustigs til æðra stjórnsýslustigs þá bendi hann á mjög alvarlegan hlut. Lægra stjórnsýslustigið fer oft að líta á sig sem einhvers konar aðila að málinu að því leytinu til að það segir nei, kallar eftir því að málinu sé vísað frá, að það nái ekki inn á æðra stjórnsýslustig og borgarinn fái ekki að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar. Það er ofboðslega alvarlegt mál eins og umboðsmaður bendir á í skýrslunni.

Þegar borgarinn hefur reynt allt hvað hann getur til þess að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar og hvorki gengur né rekur þá getur hann á endanum farið til umboðsmanns en ekki fyrr, þannig að umboðsmaðurinn er eins og hæstiréttur innan þessa málaflokks.

Þá kemur að mismuninum á því þegar fólk er annars vegar að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar og endar hjá umboðsmanni Alþingis og hins vegar innan dómskerfisins. Þegar málið er innan stjórnsýslunnar þarf ekki að borga fyrir það, maður hefur bara sinn rétt og stjórnsýslan hefur skyldur gagnvart borgurunum hvað það varðar, frumkvæðisskyldur, og á að hafa frumkvæði að því að taka upp málið og uppfræða borgarann um það hver réttindi hans og skyldur eru og á að reka málið áfram. Stjórnsýslan á ekki að taka sér stöðu gagnvart borgaranum, segja að málinu eigi að vísa frá eða eitthvað slíkt. Ef lægra stjórnsýslustig hefur verið kært til æðra stjórnsýslustigs, segir umboðsmaður Alþingis, á það bara að afhenda gögn þannig að hægt sé að komast að því hvort réttindi borgarans séu tryggð. Það er það sem stjórnsýslan á að gera en hefur ekki gert, hún hefur verið að brjóta á borgaranum á þann hátt. Umboðsmaður Alþingis segir í skýrslunni að þetta sé ekki til þess fallið að auka traust á stjórnsýslunni heldur grafi þetta undan henni.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd leggur til í áliti sínu um skýrslu umboðsmanns Alþingis, þegar kemur að þessum atriðum, að stjórnsýslustigin geri upplýsingar fyrir almenning aðgengilegri á netinu o.s.frv. Það er mjög gott og nauðsynlegt, en mér finnst að við eigum að gera meira en að kalla eftir því. Ég hef talað um það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að við getum gert það með því að kalla eftir skýrslu frá forsætisráðherra, sem fer fyrir öllum ráðuneytunum og ráðuneytin fara fyrir allri stjórnsýslunni, um að finna þessar brotalamir. Hvar eru þær? Og að lágmarki sé kallað eftir upplýsingum — og þá þarf að taka þær upplýsingar saman — um það hvernig borgarinn eigi að bera sig að og um skyldu stjórnsýslusviðanna þegar kemur að því að tryggja að borgarinn geti náð rétti sínum þegar hann þarf að sækja hann innan stjórnsýslunnar. Hver eru réttindi borgarans þegar hann í upphafi kemur þar inn? Hvaða réttindi hefur hann og hvaða frumkvæðisskyldu hefur stjórnsýslan gagnvart honum? Þetta væri að minnsta kosti fyrsta skrefið. Ég lagði til að allt kerfið væri kortlagt. Það er sagt að það sé of viðamikið og dýrt verkefni, en að minnsta kosti verði kallað eftir skýrslu um þetta fyrsta skref þegar borgarinn stígur inn og þarf að leita réttar síns í stjórnsýslunni.

Þetta mundi þvinga stjórnsýsluna til að fara í þessa vinnu og leggja niðurstöðurnar fram og ráðuneytið og hæstv. forsætisráðherra hefur þá tíu vikur til að klára vinnuna. Þá fáum við þetta sett niður fyrir okkur og hægt að fara í vinnu með þær upplýsingar, setja þær á netið og gera aðgengilegar að sjálfsögðu. Það væri mjög gott.

Til að fá skýrslu frá ráðherra þarf annaðhvort meiri hluti nefndar, í þessu tilfelli stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að samþykkja beiðni um slíka skýrslu eða níu þingmenn að kalla eftir því. Ég vona að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd stígi fram og taki af skarið með þetta og samþykki þessa skýrslubeiðni. Að öðrum kosti mun ég að sjálfsögðu leita eftir því að níu þingmenn geri það. Ég trúi ekki öðru en að það séu níu þingmenn sem hafi áhuga á því að þessi vinna verði unnin til að fá niðurstöðu, skýr svör og skýrar leiðbeiningar, og þá sé ekki hægt að þæfa málið lengur. Eftir tíu vikur erum við þá komin með þessar upplýsingar og almenningur hefur aðgang að þeim.