143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2012.

239. mál
[12:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir hans ræðu. Ég heyri ekki betur en við séum algerlega sammála um það sem ætti að vera ríkari þáttur í starfsemi embættisins sem er að rækja þetta sjálfstæða frumkvæðishlutverk. Mér fannst hv. þingmaður rekja það mjög vel í sínu máli að ekki er hnífsblaðsmunur á framsóknarmanninum og samfylkingarmanninum um þetta. Ég vildi þakka honum fyrir það. Ég held að þetta sé mikilvægt.

Í þessari umræðu kemur fram að almenn ánægja er með það hvernig embætti umboðsmanns hefur þróast í gegnum árin. Það er alveg sama hvar í flokki menn standa, ég held að menn séu jákvæðir yfir því með hvaða hætti embættið hefur rækt skyldur sínar. Það var ekkert sjálfgefið um það í upphafi. Ég held að færa megi sterk rök fyrir því að það hvernig Alþingi bjó um hnúta hjá embættinu í upphafi á sinn ríka þátt í hvernig embættið hefur þróast með þessum farsæla og hægláta hætti.

Alþingi sá til þess í upphafi að þetta væri sjálfstæð rannsóknarstofnun. Það sem kannski skiptir langmestu máli er að umboðsmaðurinn sjálfur er kosinn af Alþingi. Það skiptir alveg gríðarlega miklu máli þó að menn sjái það kannski ekki alveg í fljótu bragði. Hann er sjálfstæður. Það þýðir það að framkvæmdarvaldið og dólgar sem með það fara geta ekki annað en skakað að þeim skellum en ekkert meira. Við þurfum ekki annað en að líta yfir söguna til að sjá að stundum hafa dólgar setið í stólum sem framkvæmdarvaldið liggur um og hafa reynt að hafa áhrif á embættið með því að sveigja það og skekja það með köpuryrðum og skattyrðum. Þetta vitum við. En það hefur ekki haft nokkur áhrif vegna þess að ekki er hægt að koma fram neinum þrýstingi gagnvart umboðsmanni, hann er kjörinn hér.

Alþingi getur það ekki heldur. Ég minnist þess mjög vel á fyrstu árum þessa embættis að af því að umboðsmaður er með þessum hætti tengdur Alþingi gerðu menn sér ekki alveg grein fyrir að embættið er sjálfstæð rannsóknarstofnun. Það bar á vilja hér á fyrstu árum embættisins, af hálfu einstakra þingmanna, að embættið færi í tilteknar rannsóknir. Menn litu sem sagt í árdaga á það þannig, sumir hverjir, að Alþingi gæti skipað embættinu að fara í tiltekin mál. Það er ekki svo. Embættið hefur í gegnum tíðina markað sér sinn sjálfstæða farveg. Menn eru glaðir með það í dag.

Það hefur komið fram að í vaxandi mæli leita menn til umboðsmanns Alþingis. Af hverju er það? Vegna þess að menn sjá að þar eiga þeir skjól, að þar koma úrlausnir. Mönnum finnst kannski stundum að þær taki of langan tíma, en þær koma. Það kemur fram í þessari umræðu, er rakið vel af hv. framsögumanni málsins, að menn eru, vegna þessa aukna fjölda sem sækir undir embættið með úrlausn í sínum málum, að hagræða þar. Hv. þm. Ögmundur Jónasson rakti það með nokkuð góðum hætti hvernig menn fara í það. Það er mjög jákvætt.

Við getum, held ég, öll verið sammála um að embættið er að rækja það hlutverk sitt að svara kröfum eða óskum borgaranna, um tiltekna úrlausn á vandamálum sem borgararnir telja hafa komið upp í samskiptum þeirra og ríkisvaldsins, mjög vel.

Mig langar í þessum örfáu orðum að hnykkja á því sem ég og hv. þm. Willum Þór Þórsson gerðum hér að sérstöku umræðuefni, þ.e. áhersluna á hið sjálfstæða frumkvæði. Það skiptir mjög miklu máli. Embættið hefur ekki haft ráðrúm til að fara í það í eins ríkum mæli og kannski væri æskilegt af sjónarhóli hagsmuna borgaranna. Við vitum að samfélagið hefur verið að ganga í gegnum kreppu og umboðsmaður hefur eins og allar aðrar stofnanir þurft að herða ólina. Það breytir engu um það að samfélagið er alltaf að breytast. Lagastrúktúrinn er að breytast og með því breytast réttindi borgaranna.

Eitt af því sem hefur verið mjög lofsvert að sjá hjá umboðsmanni, og er einmitt til marks um þetta, sem við hér, tveir hv. þingmenn, höfum gert að aðalefni í ræðum okkar, er það hvernig embætti umboðsmanns hefur með sjálfstæðum hætti tekið upp mál sem varða framkvæmd samþykkta Alþingis gagnvart auknum réttindum borgaranna. Það eru ekki nema tveir mánuðir, kannski tveir og hálfur mánuður, frá því að embættið réðst til dæmis í að óska eftir tilteknum upplýsingum frá Landspítalanum, frá heilbrigðisyfirvöldum, um það hvernig búnaði á spítalanum væri háttað, mönnun og tækjabúnaði, til að ganga úr skugga um hvort þau réttindi sem Alþingi hefur fært borgurunum séu í raun framkvæmd, hvort borgararnir fái notið þessara réttinda. Í þessu tilviki er um að ræða grundvallarmál, heilsu og heilbrigði. Þetta er jákvætt dæmi um það hvað frumkvæði umboðsmanns Alþingis getur skipt miklu máli. Ég þori aldrei að vera ósammála stallsystur minni hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur en hún sagði áðan að það væri kannski fyrst og fremst það sem hún kallaði kerfislægar skekkjur sem umboðsmaður ætti að fara í með sjálfstæðum hætti. En ég er ekkert viss um að hægt sé að fella það undir einhver sárafá mál sem mætti skilgreina sem kerfislægar skekkjur.

Þetta dæmi sem ég tók hérna áðan varðar grundvallaratriði. Það má kannski segja að það sé kerfislæg skekkja ef í ljós kemur að borgararnir fá ekki þá umönnun sem Alþingi hefur sagt að sé réttur þeirra. Þetta er dæmi um stórt mál þar sem frumkvæði umboðsmanns getur skipt sköpum.

Það eru mörg önnur smærri dæmi sem líka mætti rekja. Ég minnist þess til dæmis að ein ríkisstofnun virtist, að því er mátti ætla af opinberum upplýsingum, hafa sett tiltekin fyrirtæki á svartan lista. Umboðsmaður lét það mál til sín taka. Það er akkúrat þessi varðgæsla þar sem embættið hefur frumkvæði að því að standa vörð um rétt borgaranna sem mér finnst lofsverð.

Þá kem ég að því sem var meginkjarninn í örstuttum athugasemdum mínum hér fyrr í dag. Allir þeir sem hér hafa talað af hálfu nefndarinnar eru meira og minna sammála því að það ætti að gera þetta, ætti að ýta undir þennan þátt í starfi embættisins. Það á hins vegar að vera afgangsmál. Þannig má skilja ræður sumra sem hér hafa talað.

Menn segja: Fyrst og fremst þarf embættið að taka á þessum einstöku málum sem borgararnir færa því til úrlausnar. Það er rétt. Og segja síðan: Það kemur dagur eftir þennan dag, eins og hv. framsögumaður málsins sagði, og átti við að með betri tíð í samfélaginu muni koma meiri peningar eða gildari fjárveitingar til embættisins og þar af leiðandi sé hægt að sinna þessum þætti betur.

Við höfum séð, eins og ég held að hv. þm. Willum Þór Þórsson hafi rakið hér áðan, að ásóknin í þjónustu og úrlausn af hálfu embættisins er alltaf að aukast. Sagði ekki hv. þingmaður að 2011 hefði orðið stökk? Í ár eru þetta 500 mál sem koma til kasta embættisins. Svona verður þróunin.

Velgengni embættisins í starfi kallar alltaf á meiri þjónustu. Eftir því sem embættinu gengur betur munu fleiri sækja til þess. Þess vegna held ég að það sé að minnsta kosti einnar messu virði að skoða það hvort ekki ætti hugsanlega að segja að tiltekinn hluti af mannafla embættisins eigi að sinna því mjög svo þarfa frumkvæðishlutverki eins og ég hef hér rakið varðandi grundvallarþætti.

Í dag eru níu lögfræðingar starfandi hjá embættinu. Mér fyndist það nú ekki umhendis þó það væri bara skilgreint að einn þeirra ætti að sinna málum sem umboðsmaður ákveður að taka upp með þessum hætti og hann telur að varði grundvallarhagsmuni fyrir borgarana. Ég hugsa að sá lögfræðingur mundi hafa nóg að gera.

Þess vegna varpaði ég fram þeirri hugmynd hér í umræðunni fyrr í dag, og finnst eins og umræðunni hefur undið fram að hún hafi meiri rétt á sér en þegar ég kastaði henni fram, að við ættum að skoða það í framtíðinni að marka tiltekna hluta af framlaginu til embættis umboðsmanns þessu sérstaka frumkvæðishlutverki, að það væri algjörlega skýrt að umboðsmaður á að sinna því hefðbundna hlutverki sem hann hefur með svo miklum sóma sinnt síðustu 20 árin, en hann ætti í vaxandi mæli líka að verja tilteknum parti af mannafla sínum til þess að standa undir því sem var líka hugsunin í upphafi og hann hefur af veikum burðum embættisins líka reynt að gera, þ.e. að taka sér frumkvæði til þess að skoða hvort framkvæmdarvaldið sé að afhenda borgurunum þau réttindi sem við, Alþingi, höfum sagt að það eigi að gera. Þar er sums staðar pottur brotinn.