143. löggjafarþing — 55. fundur,  23. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[16:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það gerist stundum að við hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum ekki sammála. (ÖS: Hvað boðar það?) Það er sjaldgæft en við erum svo sannarlega ekki sammála í dag.

Til að halda því til haga þá kom það fram í ræðu þingmannsins að ég hefði óttast að við mundum ekki gera góðan samning. Ég hef aldrei óttast að við mundum ekki gera góðan samning og ég vissi að samninganefndin sem fór út gerði ákaflega góðan samning. Það sem ég hef aftur á móti áhyggjur af er sú staðreynd að það er mjög mikill menningarlegur mismunur á því hvernig kínversk yfirvöld og Kínverjar túlka samninga og hvernig við gerum það. Það hefur verið einsýnt í öllum þeim samningum sem hafa verið gerðir, sambærilegum samningum og við erum að gera.

Ég hef ekki endilega áhyggjur af því að ekki hafi verið reynt að byrgja alla þá brunna sem gætu orðið okkur háskalegir eftir að þeir hafa verið opnaðir, ég vildi bara halda því til haga.

Ég veit að hv. þingmaður er snjall orðamaður og ég ber mikla virðingu fyrir tungutaki hans. En það er dálítið skrýtið í dag að margir nota málsháttinn „dropinn holar steininn“ en það ku jafnframt vera alræmd og illræmd aðferð til pyntinga og hefur verið mikið notuð í Kína. Ég mæli því með að við notum kannski aðra myndlíkingu.