143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[14:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Margt í þeim skilyrðum sem sett eru inn er gott. Aftur á móti hafa komið fram kvartanir um hvernig þessi skilyrði hafa verið nýtt af umboðsmanni skuldara. Meðal annars er ungri þriggja barna móður á kennaralaunum — hún talaði um þetta opinberlega og var fjallað um það í fjölmiðlum — gert að leggja til hliðar yfir 100 þús. kr., 120 eða 140 þús. kr., á mánuði til að uppfylla þessi skilyrði. Það er mjög einkennilegt. Ég get ekki séð hvernig þriggja barna móðir á kennaralaunum getur lagt fyrir 120–140 þús. kr. á mánuði. Fram hafa komið kvartanir um hvernig umboðsmaður skuldara beitir þessum ákvæðum, þessum skilyrðum fyrir aðstoðinni, sem munu líka verða skilyrði fyrir hjálp við að fara í gjaldþrot.

Það er því mjög mikilvægt að ráðherra geti gripið inn í ef kært er til ráðherra, ef skilyrði laganna eru þau að einstaklingurinn eigi að geta gert þetta. Ef umboðsmaður segir að þriggja barna móðir á kennaralaunum geti lagt fyrir 120 þús. kr. á mánuði er mikilvægt að ráðherra geti hnekkt því, að ráðherra geti sagt: Nei, hún getur það ekki, við getum ekki séð að hún geti gert það.

Hvar liggur ábyrgðin og hver tekur endanlega ákvörðun? Það er mjög mikilvægt að ljóst sé að það liggi þá hjá ráðherra. Ef fólk er óánægt með niðurstöðu umboðsmanns skuldara, þegar það sækir um aðstoð við að fara í gjaldþrot, að fá greiddar þessar 250 þús. kr. fyrir gjaldþrotið, á það að nýta sér það ákvæði laganna að kæra til ráðherra. Og ef hvorki gengur né rekur getur fólk, sem sækir um þessa aðstoð og hefur reynt það, talað við mig (Forseti hringir.) og ég skal fara yfir það mál með þeim.