143. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2014.

almenn hegningarlög.

109. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir ágætissamstarf þótt sá eini sem sé á þessari skoðun sé sá sem hér stendur. Það er oft þannig með tjáningarfrelsið, þegar á að fara að verja rétt fólks til að hafa óvinsælar og jafnvel ljótar skoðanir er lítið um verjendur, kannski eðlilega. Mig langar til að útskýra í stuttu máli hvers vegna minni hlutinn, sem er ég, leggur fram breytingartillögu við þetta frumvarp.

Frumvarpið sem breytingartillagan varðar breytir almennum hegningarlögum á tvennan hátt. Í 1. gr. er sagt að í stað orðanna „trúarbragða eða kynhneigðar“ í 1. mgr. 180. gr. laganna komi: trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Ég ítreka aftur að minni hlutinn hefur ekkert út á það að setja, þetta er góð breyting, jákvæð, nauðsynleg og mikilvæg og mætti jafnvel víkka hana út ef út í það er farið.

Síðan er 2. gr. frumvarpsins sem breytir heldur mikið orðalaginu í 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þar er bætt við orðinu kynvitundar. Ég les greinina í heild sinni, með leyfi forseta:

„Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Lögfróðari menn en ég hafa sagt mér að þetta sé í raun ekki útvíkkun á ákvæðinu að því leyti að líklegra sé að því sé framfylgt, sem betur fer vegna þess að framfylgni svona laga er í eðli sínu slæm. Það er í eðli tjáningarfrelsisins, ekki það að við sem þjóðfélag umberum að fólk hafi einhvern einstaklingsrétt til þess að tjá sig heldur er tjáningarfrelsið tólið sem við notum til að komast að lýðræðislegri niðurstöðu.

Nú vil ég nefna eitt dæmi sem er í deiglunni víða, einkum á internetinu, sem þessari grein er sérstaklega ætlað að taka tillit til og það er deilan milli trúarbragða sem heita islam og fyrirbæris sem er kallað samkynhneigð. Þetta er oft ekkert alveg samhæft. Í stærri skólum islams er samkynhneigð oft fordæmd sem er vitaskuld slæmt. Það er nokkuð sem þarf að ræða í þaula, það er nokkuð sem vestrænt lýðveldi tekst á við með því að ræða og spyrja hv. múslima: Af hverju er ykkur ekki árans sama þótt einhver sé samkynhneigður? Hvaða máli skiptir það? Hvað kemur ykkur það við? Það þarf að taka þá lýðræðislegu umræðu.

Til þess að hún geti átt sér stað þarf músliminn að geta sagt sína skoðun. Hafi þessi grein fælingarmátt í þeirri umræðu dregur það úr henni og tefur okkur í þeirri annars þörfu baráttu gegn fordómum gagnvart samkynhneigð.

Þetta er gallinn við takmarkanir á tjáningarfrelsi, þetta er ekki aðeins spurning um rétt til þess að tjá sig. Takmarkanir á tjáningarfrelsi hægja í eðli sínu á umræðunni og þess vegna segir stjórnarskráin að ekki beri að setja neinar tálmanir á tjáningarfrelsi nema með lögum í þágu hins og þessa, öryggi ríkisins og ýmissa slíkra hluta, enda séu þau lög sem eru nauðsynleg og samrýmast lýðræðishefðum.

Þetta er ekki einhver kurteisisvarnagli, hann er ekki til þess að fólk geti horft á bíómyndir sem því finnst skemmtilegar, þetta er til þess að hægt sé að nýta tjáningarfrelsið í lýðræðislegri umræðu. Það er vegna þess að tálmanir á tjáningarfrelsi eru slæm hugmynd og það á ekki að nota þær nema þegar það er algjörlega nauðsynlegt. Ég mótmæli því að það sé algjörlega nauðsynlegt þegar kemur að þessu tiltekna dæmi, eða í það minnsta hugsanlega ónauðsynlegt. Það er nóg fyrir þann sem hér stendur.

Tjáningarfrelsið er mikilvægt, það er ekki til gamans, það er mikilvægt.

Eins og ég sagði áður hafa mér lögfróðari menn útskýrt fyrir mér að hér sé ekkert verið að víkka þetta út og það er gott og blessað sé maður lögfræðingur eða dómari eða lögreglumaður eða saksóknari eða eitthvað því um líkt, en þegar maður er þegn í samfélaginu, þegar maður er venjuleg manneskja sem er að lesa lögin af forvitni, það er til fólk í landinu sem vill þekkja lögin og vill vita hvað má og hvað má ekki, er hætt við því að hann eða hún túlki lögin þannig að þau megi ekki tjá eitthvað sem þeim liggur á hjarta, með réttu eða röngu. Það finnst mér ekki nógu gott.

Jafnvel ef lögtæknileg útskýring á þessu er ekki þannig að þetta útvíkki heimildir til þess að beita sektum eða fangelsi allt að tveimur árum eru það nógu slæm áhrif ef fólk bara fær það á tilfinninguna að það megi ekki segja eitthvað sem því finnst. Það er nógu slæmt, nema þegar það er algjörlega nauðsynlegt, t.d. til þess að vernda segjum friðhelgi einkalífsins eða rannsóknarhagsmuni eða eitthvað því um líkt, ef það eru borgaralega réttindalegar ástæður fyrir takmörkun á tjáningarfrelsi.

Vegna þeirra sjónarmiða lagði ég fram breytingartillögu sem miðar að því að reyna að gera málið þannig að það bæti að minnsta kosti klárlega tjáningarfrelsismál á Íslandi. Mér vitanlega hefur ekki verið sett löggjöf á Íslandi sem útvíkkar tjáningarfrelsið frá stofnun lýðveldisins, eða fyrr. Leiðrétti mig hver sem betur getur.

Þess vegna finnst mér alveg kominn tími til að við förum að ræða um tjáningarfrelsið með hliðsjón af því að auka það en ekki sífellt að finna fleiri og fleiri afsakanir fyrir því að minnka það.

Þess vegna legg ég fram breytingartillöguna, til þess að meðfram því að uppfylla þá viðbótarbókun sem við ætlum að uppfylla gefum við líka þau skilaboð að Alþingi virði tjáningarfrelsið, að Alþingi hafi ekki áhuga á því í það minnsta að fangelsa fólk fyrir tjáningarbrot. Þá er heildarlöggjöfin að minnsta kosti skárri en ella, þá er hún þó til góðs. Það er markmiðið með breytingartillögunni, enda sagði ég í nefndaráliti minni hlutans milli 1. og 2. umr. að ég legði til að frumvarpið yrði samþykkt — með þessari breytingartillögu. Þá aukum við tjáningarfrelsið og komum til móts við viðbótarbókunina frá EES eða ESB, ég man ekki hvort það var, og sjónarmið hæstv. innanríkisráðherra og þeirra sem eru hlynntir frumvarpinu óbreyttu. Þetta er í raun ákveðinn friðarsamningur sem ég legg hér á borð þannig að við getum samþykkt þetta frumvarp, kynvitundarákvæðið kæmi til, orðabreytingin kæmi til en þá verður líka skýrara að þetta væri einnig skref í átt að meira tjáningarfrelsi. Það væri stórsigur fyrir okkur öll, tel ég.

Ég held ekki að fleiru sé við þetta að bæta en ég legg til að þessi breytingartillaga verði samþykkt. Þá getum við samþykkt frumvarpið í heild sinni. Öll.