143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

afnám verðtryggingar.

[15:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Nú liggja fyrir tillögur starfshóps, sérfræðingahóps sem fjallaði um verðtrygginguna, og í tillögum nefndarinnar er fjallað um forsendur þess að draga úr vægi verðtryggingar og notkun hennar á Íslandi. Í tillögunum má finna sérstaka úttekt á því hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til að afnema verðtryggingu af neytendalánum með öllu.

Þar er sérstaklega fjallað um vanda sem Íbúðalánasjóður stendur frammi fyrir, að það þurfi að vera búið að leysa hann. Þar er annars vegar minnst á fjármögnun lífeyrissjóðakerfisins og þær reglur sem lífeyrissjóðakerfið starfar eftir í dag sem eiga að tryggja ákveðna verðtryggða ávöxtun, það þurfi að svara spurningum sem snúa að lífeyrissjóðakerfinu.

Í þriðja lagi er það álit meiri hluta sérfræðinganefndarinnar að endurskipulagning á húsnæðislánamarkaðnum þurfi að hafa átt sér stað og í fjórða lagi þurfi að tryggja að með slíku afnámi verðtryggingar á neytendalánum þurfi að ganga úr skugga um að við taki fullnægjandi framboð af öðrum lánamöguleikum fyrir íbúðakaupendur. Þessu fylgja síðan ábendingar um möguleg neikvæð áhrif á fasteignaverð í landinu og mánaðarlega greiðslubyrði.

Þetta eru þættirnir sem í dag standa í vegi fyrir fullu afnámi verðtryggingarinnar og ég tel að gaumgæfa þurfi það mjög vel, eftir þennan tíma sem nefndin talar um, fram til ársins 2016; að þeim tíma liðnum þurfi að skoða alla þessa þætti og þeir þurfi þá aftur að koma til skoðunar hyggist menn kanna möguleika á frekari skrefum í þessa átt.

Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að ég hef lagt áherslu á að auka valkostina. En þegar við horfum á 40 ára lánin, og ég skal ræða þau í síðara svari mínu, hafa þau mörg slæm einkenni annarra lánsforma sem víða annars staðar er reynt að draga úr.