143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[15:44]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er mikið undrunarefni að hæstv. ríkisstjórn ákveði að leggja af stað í þennan leiðangur á þessum tímapunkti þegar miklu máli skiptir að samstaða sé um Ríkisútvarpið og þegar miklu máli skiptir að Alþingi fylgi því fordæmi sem stjórn Ríkisútvarpsins sýndi við ráðningu nýs útvarpsstjóra, hún náði góðu samkomulagi um niðurstöðuna.

Það eru mikil vonbrigði þegar haft er í huga að meginefni áramótaávarps hæstv. forsætisráðherra fjallaði um sáttina og nauðsyn þess að standa saman og hvernig okkur hefði ávallt farnast best þegar þannig væri að málum staðið.

Þess vegna lýsi ég yfir mikilli undrun og vonbrigðum með þessa niðurstöðu og þá kosningu sem hér fer fram. Hún er ekki til þess fallin að skapa meiri sátt um Ríkisútvarpið.