143. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2014.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[17:00]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alltaf álitamál þegar gerðir eru samningar um fríverslun við ríki sem ekki eru lýðræðisríki og þá sérstaklega ef um er að ræða ríki sem ekki virða almennar vinnumarkaðsreglur. Við erum þá í sjálfu sér að opna dyr fyrir samkeppni við fyrirtæki sem ekki virða þau grundvallarviðmið sem við teljum sjálfsagt að séu virt á íslenskum vinnumarkaði. Þess vegna er mjög mikilvægt að í þessu samkomulagi er gert ráð fyrir að tekið verði á vinnuverndarmálum og nú liggur fyrir staðfesting ríkisstjórnarinnar á því að fulltrúar Alþýðusambands Íslands sem og þeirra samtaka sem eru stærst á íslenskum vinnumarkaði muni koma að samtölum við kínversk stjórnvöld að þessu leyti og geta sett á dagskrá málefni er varða vinnuvernd og vinnurétt. (Forseti hringir.) Í því trausti styð ég þetta mál og tel það ásættanlegt.