143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

uppbygging hafnarmannvirkja á Bíldudal.

[15:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tel mjög brýnt að niðurstaða fáist í þetta mál sem fyrst því að auðvitað eru öll svona verkefni mjög viðkvæm. Áætlanir Arnarlax ganga út á að hægt verði að hefja vinnslu á svæðinu sumarið 2015, sem er fullvinnsla á laxi, og setja á út seiði á þá framleiðslu nú í sumar og búið er að selja framleiðslu fyrstu áranna.

Upphaf þessa máls er frá 2007 og búið að vinna mjög mikla undirbúningsvinnu í þessu öllu. Vesturbyggð og heimamenn allir leggja mikla áherslu á að málið fái framgang. Við vitum öll að mjög erfitt atvinnuástand hefur verið á þessu svæði. Bíldudalur flokkast undir eina af þessum brothættu byggðum og í þessu sjávarþorpi hefur ekki verið unninn neinn bolfiskur undanfarin ár. Það er því mjög mikilvægt að þetta verkefni heppnist vel.