143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[15:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku lýðveldisins Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

Með frumvarpinu er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningum um þátttöku lýðveldisins Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu auk þess sem kveðið er á um lögfestingu breytinga á meginmáli EES-samningsins vegna aðildar Króatíu. Nánar tiltekið er hér um að ræða breytingu á lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem þau lög veittu meginmáli EES-samningsins lagagildi hérlendis. Einnig er í frumvarpinu mælt fyrir um breytingu á lögum um útlendinga, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES.

Króatía gerðist aðili að Evrópusambandinu hinn 1. júlí sl. en samkvæmt EES-samningnum er nýjum aðildarríkjum ESB skylt að sækja jafnframt um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Samningurinn sem hér er til umfjöllunar mælir þannig fyrir um aðild Króatíu að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Að miklu leyti er hér um að ræða lagatæknilega uppfærslu á EES-samningnum. Þá eru líka felldar inn í EES-samninginn þær aðlaganir sem gerðar voru á viðkomandi löggjöf ESB við aðild Króatíu að sambandinu til þess að tryggja megi samræmda beitingu viðkomandi löggjafar á öllu EES-svæðinu.

Samningurinn um aðild Króatíu að EES var undirritaður í Brussel 20. desember sl. og meðal þeirra aðlagana sem samið var um, vegna aðildar Króatíu að ESB, er að aðildarríkjum er heimilt að fresta gildistöku ákvæða að því er varðar frjálsa för króatískra ríkisborgara sem launafólks innan sambandsins í tiltekinn tíma en þó aldrei lengur en til 1. júlí 2020. Samkvæmt aðildarsamningi Króatíu að EES gilda þessar aðlaganir einnig um Evrópska efnahagssvæðið og er þannig í frumvarpinu, eins og áður sagði, jafnframt mælt fyrir um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, og lögum um útlendinga, nr. 96/2002.

Samkvæmt þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er ákvæðum um frelsi launafólks til flutninga innan EES frestað tímabundið að því er varðar aðgengi króatískra ríkisborgara að íslenskum vinnumarkaði eða fram til 1. júlí 2015. Mögulegt er að framlengja þessar takmarkanir í mesta lagi til 1. júlí 2020 teljist slíkt nauðsynlegt þegar fram í sækir.

Í viðræðunum um aðild Króatíu að EES var líka samið um framlög til Þróunarsjóðs EFTA, að þau yrði aukin um 5 milljónir evra á tímabilinu 1. júlí 2013 til 30. apríl 2014. Þessi upphæð mun renna til Króatíu en við höfum lagt mikla áherslu á meðal annars að horft verði til þróunar jarðhita við úthlutun þessa fjármagns. Miðað við núverandi hlutdeild Íslands í þróunarsjóðnum þýðir þetta að Ísland mun greiða aukalega um 26 millj. kr. á þessu sjóðstímabili vegna aðildar Króatíu. Þá var samhliða samið um að ESB mundi auka tollfrjálsa kvóta á frystum humri og karfaflökum um 60 tonn annars vegar og 100 tonn hins vegar, en ESB leggur 12% toll á humarinn og 5,4% toll á karfann.

Miðað við útflutning á þessum tegundum til ESB er áætlað að umsamin lækkun tolla geti numið tæpum 20 millj. kr. á ársgrundvelli til hagsbóta fyrir íslenska útflytjendur eða um 16 millj. kr. á tímabilinu 1. júlí til 30. apríl. Þar sem kvótarnir eru bundnir við sama tímabil og framlag til þróunarsjóðsins verður að fullgilda aðildarsamning Króatíu fyrir 30. apríl nk. eigi umsamdir tollkvótar að geta komið til framkvæmda.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.