143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

vernd og nýting ferðamannastaða.

[14:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það mátti heyra á ræðu hæstv. ráðherra hér að hún áttar sig á þeim viðfangsefnum sem við blasa í þessum efnum. En ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því hversu brýnn þessi vandi er og hversu mikil þörf er á því að taka á honum strax, vegna þess að ef svo væri hefðu tillögur að náttúrupassa legið fyrir í upphafi haustþings eftir síðastliðið sumar.

Það er ekki hægt að komast að neinni annarri niðurstöðu þegar maður hlustar eftir framtíðarsýn og stöðu verka í ráðuneytinu en að unnið sé of hægt í þessum efnum, ekki sé lögð nægileg áhersla á að ljúka þessu máli. Það mátti heyra á hæstv. ráðherra að henni þykir þetta flókið og kannski er þetta of flókið fyrir hæstv. ráðherra til þess að ráða við, maður veltir því fyrir sér. En ég held að það sé einsýnt að ráðherra þurfi að óska eftir því að starfsmenn ráðuneytisins leggi önnur verk til hliðar og einbeiti sér að því að koma þessum málum í farveg þannig að hér blasi ekki við ófremdarástand næsta sumar eins og staðan er núna. Hér er rætt um að koma með einhverjar hugmyndir, mögulega, í þingið í næsta mánuði. Hvað er þá mikið eftir af þinginu? Eiga þingmenn þá ekki að fá neitt tækifæri til þess að fjalla um þær tillögur sem fyrir liggja?

Það er ekki hægt að gefa hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra neitt annað en falleinkunn í þessu máli. Hún hefur ekki staðið sig nógu vel í því að koma málinu í farveg. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki kvartað undan því að það vanti fjármagn í þetta vegna þess að ríkisstjórninni var í lófa lagið að innheimta virðisaukaskatt af ferðaþjónustu, sem var kominn inn í allar verðskrár ferðaþjónustunnar um áramót. En hún ákvað að gera það ekki og afsalaði sér þannig 1,5 milljörðum. Hún ákvað líka að vera ekki búin að framkvæma náttúrupassann og afsalaði sér þannig 1 milljarði (Forseti hringir.) til viðbótar. Þetta eru fjármunir sem þarf í þetta verkefni og það er ekki hægt að gefa hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra annað en falleinkunn í þessu máli.