143. löggjafarþing — 61. fundur,  11. feb. 2014.

skipulags- og mannvirkjamál á Reykjavíkurflugvelli.

217. mál
[17:09]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Sá þingmaður sem hér stendur hefur sérstaklega gaman af því að ræða skipulagsmál og málefni Reykjavíkurflugvallar og er satt að segja sérstakur áhugamaður um hvort tveggja. Það er vegna þess að ég hef mjög gaman af því að velta fyrir mér og ræða framtíðina. Borgarskipulag og skipulagsmál almennt er ákveðin kortagerð inn í framtíðina og hvernig við skipuleggjum okkar bæi og borgir hefur mjög mikil áhrif á það hvernig þær þróast og þroskast til framtíðar.

Nú höfum við átt í mjög miklum umræðum, sérstaklega á vettvangi Reykjavíkurborgar, síðustu fimmtán, tuttugu árin en í raun og veru miklu lengur um stöðu Vatnsmýrarinnar og hvernig það land sem nú er nýtt undir Reykjavíkurflugvöll er í raun og veru ákveðinn lykill að þróun borgarinnar. Á sama tíma höfum við tekið mjög mikla umræðu á landsvísu og líka í Reykjavík um stöðu flugs til Reykjavíkur og samgöngur frá Reykjavík á aðra staði á landinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að taka þessa umræðu vegna þess að Reykjavík er ekki eitt og landsbyggðin annað og heimurinn er ekki bara þetta tvennt. Þróun ekki bara borgarinnar heldur landsins alls er auðvitað hluti af miklu stærra fyrirbæri sem heitir umheimurinn og samskiptin við umheiminn og tækifærin sem felast í þeim samskiptum skipta okkur alltaf meira og meira máli. Þegar sá sem hér stendur var yngri fóru fáir Íslendingar til útlanda og við sáum sjaldan útlendinga eða það var alla vega langt í þeirra áhrif, en þjóðfélag okkar hefur þróast ansi mikið síðan.

Ég vildi kannski ekki endilega fara inn í þá fílósófíu en ástæðan fyrir því að við ræðum hér um skipulagsmál og Reykjavíkurflugvöll er vegna þess frumvarps sem hér er lagt fram og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson talar fyrir. Svo það sé sagt er sá þingmaður sem hér stendur eiginlega bara mjög mótfallinn þessu frumvarpi og af mjög mörgum ástæðum. Ég gæti mjög auðveldlega tekið undir nokkurn veginn allt sem kom fram í ræðum hv. þingmanna Marðar Árnasonar og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur áðan í umræðunni um stöðu flugvallarins, um þann veruleika að Reykjavík sé höfuðborg Íslands, sem við vitum að hún er, án þess að það sé nokkurs staðar skilgreint í raun og höfuðborgarskyldurnar eða -réttindin ekki heldur skilgreind. Það hefur verið kallað eftir því samtali líka á vettvangi borgarstjórnar.

Annað af áhugamálum mínum eru stjórnskipunarmál. Þetta frumvarp, alla vega núna í þessari umræðu, vil ég sérstaklega ræða út frá stjórnskipunarháttum. Hér á Íslandi búum við við tveggja laga stjórnkerfi, stjórnskipun, þar sem við erum annars vegar með sveitarstjórnir og hins vegar með landsstjórn. Langflest ríki í kringum okkur sem við viljum miða okkur við, öll ríki í Evrópu vil ég meina, hafa a.m.k. tvö stjórnskipunarstig og flest þrjú, þar sem bætist á milli sveitarstjórnanna og landsstjórnar svokallaðar héraðsstjórnir. Þessi stjórnskipunarstig skipta á milli sín verkefnum og ábyrgð. Það er í raun og veru mjög skýr verkaskipting þarna á milli. Ef við horfum á stöðuna eins og hún er í dag eftir síðustu skiptingu verkefna, eftir yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna frá ríkinu, í peningum talið, fara sveitarfélögin með eitthvað um 40% af opinberu fjármagni á landinu og ríkið um 60%. Þar fyrir utan skipta þessi stig á milli sín ákveðnum verkefnum, t.d. í skólamálum, í málefnum hjúkrunarheimila, í málefnum sjúkraflutninga þar sem sveitarstjórnarstigið eða byggðarsamlög sveitarstjórnarstigsins hafa tekið að sér verkefni sem ríkið hefur á hendi og ríkið greiðir fyrir.

Þessi skipting, þessi margra laga skipting stjórnskipunar er ekki af neinni tilviljun. Fyrir ekkert svo mörg hundruð árum var mikil tíska í Evrópu að hafa stjórnskipulag í raun bara á einu stigi og einfaldað til muna með einveldi konunga eða keisara, sem voru voðalega klárir gaurar sem réðu öllu. Í stöku tilfellum gekk það ágætlega upp. Það er oft talað um að Pétur mikli hafi byggt þessa fínu og sætu borg þarna í Pétursborg. En það var ekki að ástæðulausu sem þessi tíska lagðist af og eftir ákveðið brölt vil ég leyfa mér að segja að öll lönd í Evrópu og flest lönd í heiminum núorðið hafa tekið upp lýðræðisskipulag þar sem völdum og ábyrgð er dreift og sett er upp sérstök stjórnskipunarregla um skiptingu ábyrgðar til að tryggja aðkomu sem allra flestra. Það er mikilvægt hugtak í stjórnskipunarpælingunum öllum og stjórnskipunarfræðunum hin svokallaða nálægðarregla sem segir í raun og veru að ákvörðun og vald eigi að liggja sem næst þeim sem lúta því valdi, þeirri ákvörðun. Þetta er ákveðin meginregla í nútíma vestrænu lýðræðisskipulagi og t.d. í skipulagi Evrópusambandsins, sérstaklega byggðastefnu þess.

Þetta er auðvitað gert til þess að tryggja aðkomu íbúanna að ákvarðanatöku, til þess að tryggja lýðræði og til þess að tryggja að réttur fjöldans til að taka þátt í ákvörðunum sem hafa áhrif og móta nærumhverfið, að sú ákvörðun sé ekki tekin annars staðar og hún sé ekki tekin af minni hluta eða óskyldum aðilum. Þess vegna höfum við á Íslandi í þessu tveggja laga kerfi okkar sett mjög skýrar reglur um völd og ábyrgð sveitarfélaga og nú síðast í sérstökum lögum sem við höfum, svokölluðum sveitarstjórnarlögum sem voru samþykkt 2011, ef ég man rétt, þar sem þessi ábyrgð er mjög vel skilgreind og mjög horft til lýðræðisskipulags, samráðs sveitarstjórnarstigsins við íbúa o.s.frv.

Þessi lög eru um margt mjög góð fyrirmynd. Í umræðunni hérna á undan um eftirfylgni með fjárlögum kom t.d. fram að í verkefnum ríkisins hafa um 40% af fjárlagaliðum ekki staðist fjárlög og í raun og veru, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson orðaði það svo vel, ríkir algjört agaleysi í ríkisfjármálum. En það ætti að vera Alþingi svo auðvelt og stutt að horfa til sveitarstjórnarlaganna sem voru samþykkt fyrir örfáum árum og sérstaklega fjármálareglna þeirra laga sem setja miklar kröfur um aga á sveitarfélögin. Það hefur verið mjög skemmtileg, gagnleg og uppbyggileg umræða á vettvangi sveitarstjórnarstigsins um þær reglur og sveitarfélögin hafa á mjög ábyrgan hátt aðlagað sitt fjárhagsumhverfi, skulum við segja, að þeirri meginreglu að sýna aga í fjármálum og þeirri meginreglu að reikningur sveitarfélags verður að vera í jafnvægi, a.m.k. yfir þriggja ára tímabil. Ég vil bara koma þessu að.

Sá sem hér stendur er tiltölulega nýorðinn fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík þannig að það kemur kannski ekki á óvart að ég skuli koma hérna upp. Það vakti oft athygli mína og mér þótti það dálítið skondið þegar ég var borgarfulltrúi hvað það virtist oft ríkja sá skilningur ríkisins megin og jafnvel hjá þingmönnum að sveitarstjórnarmenn og sveitarstjórnarstigið væri svona, skulum við segja, hagsmunaaðili úti í bæ. Eins og sveitarstjórnarmenn upplifa það var alla vega ekki oft nógu ríkur skilningur á því að sveitarstjórnir eru ekki áhugasamtök eða hagsmunasamtök úti í bæ heldur eru þær þvert á móti í stjórnskipun okkar og í stjórnarskrá annað af tveimur stjórnskipunarstigum lýðræðisins og fulltrúar í sveitarstjórnum á Íslandi eru allir lýðræðislega kjörnir. Það er svo merkilegt að fyrir utan væntanlega embætti forseta Íslands eru engir kjörnir fulltrúar á Íslandi með fleiri atkvæði á bak við sig en einmitt borgarfulltrúar í Reykjavík, svo merkilegt sem það hljómar. Í raun og veru stendur sá sem hér stendur, þingmaður Reykvíkinga í suðurhluta Reykjavíkur, væntanlega með færri atkvæði á bak við sig hér á hinu á háa Alþingi en hann var í borgarstjórn, hvað þá þingmenn annarra kjördæma þar sem við þekkjum ákveðið jafnvægisleysi í atkvæðum á bak við hvern þingmann eins og það er.

Varðandi þetta frumvarp hér vil ég, eins og ég sagði fyrr, gera það sem hv. þingmenn Mörður Árnason og Ragnheiður Ríkharðsdóttir sögðu í ágætum ræðum sínum hér áðan að mínum orðum og taka undir nokkurn veginn allt sem þar kom fram. Þetta frumvarp vekur mér eiginlega furðu. Ég skil vel og hef að mörgu leyti mikla samúð með því sjónarmiði hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar sem kom fram í framsögunni að honum væri umhugað um tryggar samgöngur til Reykjavíkur alls staðar að af landinu og hann upplifi Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri sem einu leiðina til þess að tryggja þær. Það þykir mér vera umræða sem við eigum að halda og taka og þess vegna fagnaði ég sérstaklega því þegar innanríkisráðherra gerði samkomulag við borgarstjórn í Reykjavík um akkúrat það að skoða framtíð flugmála og samgangna við Reykjavík. En þessu frumvarpi sýnist mér vera frekar svona skellt fram sem innleggi í umræðuna en sem raunverulegu frumvarpi, eins og ég upplifi það. Ef svo er ekki geld ég eiginlega sérstakan varhuga við frumvarpinu vegna þess að hér er vegið að einum helsta rétti sveitarstjórnarstigsins og helstu skyldu þess og það fært yfir á landsmálasviðið, Alþingi, svona næstum því, miðað við greinargerðina, bara „af því bara“.