143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Heilbrigðisráðherra hefur ekki skrifað undir samning milli Sjúkratrygginga Íslands og sjúkraþjálfara þar sem hann segir að áherslur samningsins hafi ekki fallið nógu vel að markmiðum ríkisstjórnarinnar í kjarasamningum eða verðlagsmarkmiðum. Við veltum fyrir okkur: Höfðu Sjúkratryggingar ekki tilteknar heimildir? Af hverju lá ekki fyrir hversu mikið mátti semja um? Sjúkratryggingar buðu jú samninginn fyrir hönd ráðherra og ráðuneytis og voru að þeirra sögn í samráði við fjármálaráðuneytið allan tímann. En hæstv. heilbrigðisráðherra segir í viðtali við Bylgjuna í morgun að Sjúkratryggingar hafi haft öruggar heimildir um hvað mátti. Samt er þetta niðurstaðan.

Af hverju þurfti þetta allt að fara upp í loft, af hverju var ekki hægt að ganga frá samningum innan tilskilins tíma? Það er enginn sem líður fyrir svona nema skjólstæðingarnir og við erum að tala um viðkvæma þjónustu, m.a. við fatlað fólk, fötluð börn, aldrað fólk. Nú lesum við meira að segja um að fólk sé að afpanta þessa þjónustu fyrir börnin sín sem þurfa reglubundið að fara í sjúkraþjálfun, allt vegna kostnaðar sem það ræður ekki við. Ráðherrann hefur fengið sent bréf þar sem kona tíundar m.a. að þurfa að fara með drengina sína tvo í sjúkraþjálfun og að það kosti rúmlega 30 þús. kr. á viku.

Skjólstæðingar sjúkraþjálfara þurfa sem sagt að leggja út allt gjaldið fyrir meðferðina og sækja svo sjálf um endurgreiðslu til Sjúkratrygginga Íslands. Það geta bara ekki allir gert. Ráðherra segir að það sé öllum fyrir bestu að samið sé upp á nýtt en það tekur líka örugglega langan tíma.

Ég tek undir orð formanns Félags íslenskra sjúkraþjálfara þar sem hún vonar að svo mikill strengur sé í ráðherra að hann sjái til þess að samningar verði ekki lausir lengi. Hún minnir á orð hans þegar hann skrifaði undir samning við sérfræðilækna um áramótin. Þá skrifaði hann undir með þeim orðum að það væri ábyrgðarhluti að láta fagstéttir vera utan samnings. Í þessa stöðu er hann nú samt búinn að setja sjúkraþjálfara og skjólstæðinga þeirra.

Að þrengja að sjúkraþjálfun er ekki til sparnaðar. Samningsleysi til langs tíma þýðir að þeir veikustu, sem eiga oft erfiðast með að leggja út fyrir fullu gjaldi, eru þeir sem líklegastir væru til að þurfa að nýta sér sjúkrahúsþjónustu eða stofnanir. Og hver er sparnaðurinn í því?