143. löggjafarþing — 62. fundur,  12. feb. 2014.

umferðarlög.

284. mál
[16:49]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Sem kunnugt er hefur um nokkurt skeið farið fram heildarendurskoðun núgildandi umferðarlaga. Í ljósi umfangsmikilla verkefna þingsins á þessu starfsári var tekin ákvörðun um það í innanríkisráðuneytinu að leggja ekki fram heildarfrumvarp til nýrra umferðarlaga á þessu þingi en hins vegar er nauðsynlegt að leggja fram breytingafrumvarp sem að meginefni inniheldur þau atriði sem áður hafa verið lögð fram í heildarfrumvarpi en brýnast var talið að þau næðu fram að ganga núna.

Í frumvarpinu er að finna ákvæði sem felur í sér innleiðingu eða leiðréttingu á innleiðingu EES-réttar, svo sem ákvæði um breytingar á skilgreiningum á skilyrðum ökuréttinda, um endurmenntun atvinnubílstjóra, um heimildir umferðareftirlitsmanna til að skoða ástand ökutækja á vegum úti og um öryggis- og verndarbúnað barna. Þá þykir rétt í ljósi breyttra skilgreininga á léttum bifhjólum og síaukinnar notkunar bifhjóla í umferðinni að setja skýrar reglur um akstur slíkra hjóla og hefur frumvarpið að geyma slíkt ákvæði. Einnig er í frumvarpinu að finna breytingar á ákvæðum er varða skráningu ökutækja sem taldar eru fela í sér bæði aukna hagkvæmni og réttindi til borgaranna þar sem stjórnvaldsákvarðanir eru færðar frá ráðuneytinu til stjórnsýslustofnunar og opnast þar með kæruleið til ráðuneytisins.

Virðulegur forseti. Í 1. gr. er að finna breytingar á skilgreiningum nokkurra ökutækja og er þar megintilgangurinn að færa skilgreiningarnar til samræmis við tilskipanir ESB sem Ísland hefur skuldbundið sig til að innleiða í íslenskan rétt. Er jafnframt lagt til að svokölluðum léttum bifhjólum verði skipt upp í tvo flokka, flokk I og II, eftir afli þeirra. Þar sem þessi breyting er ein af þeim breytingum í frumvarpinu sem munu hafa íþyngjandi áhrif á einstaklinga, sérstaklega eigendur bifhjóla, þykir rétt að veita ákveðinn aðlögunartíma vegna þeirra. Því er ekki gert ráð fyrir að ákvæðin taki gildi fyrr en 1. nóvember 2014 og er þannig veittur tími til að skrá bifhjól og afla sér tilskilinna réttinda til aksturs þeirra.

Í frumvarpinu er lagt til að skylda til endurmenntunar atvinnubílstjóra — þetta er kannski sá þáttur í frumvarpinu sem hvað mest hefur verið til meðferðar og umræðu — verði innleidd hér á landi og er ákvæði það í samræmi við skuldbindingar íslenskra ríkisins til innleiðingar á tiltekinni tilskipun Evrópusambandsins. Í ákvæðinu felst að allir ökumenn sem hafa akstur að atvinnu skuli undirgangast endurmenntun á fimm ára fresti. Skylda til reglubundinnar endurmenntunar atvinnubílstjóra var á sínum tíma innleidd í íslenskan rétt með reglugerð nr. 760/2006.

Í lok árs 2010 féll í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu úrskurður þess efnis að í ákvæðum reglugerðarinnar fælist takmörkun á atvinnuréttindum þeirra sem höfðu áunnið sér aukin ökuréttindi fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar má setja atvinnufrelsi skorður enda krefjist almannahagsmunir þess. Þarf þó ávallt lagaboð til. Í ljósi úrskurðarins var ljóst að skyldur til reglubundinnar þjálfunar atvinnubílstjóra þyrfti að innleiða með lögum. Því verður ákvæðum tilskipunarinnar ekki fullnægt nema með lagasetningu eins og þeirri sem við ræðum hér.

Eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, hefur nokkur mótstaða verið við kröfu um endurmenntun af hálfu hagsmunaaðila. Er hún að mörgu leyti skiljanleg. Því er rétt að upplýsa að í því skyni að leita leiða til að innleiða endurmenntun samkvæmt tilskipuninni í sem mestri og bestri sátt skipaði þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, starfshóp um endurmenntun atvinnubílstjóra í september 2012. Markmiðið við vinnu hópsins var að leita leiða til að tilskipunin hefði sem vægust áhrif á íslenskt atvinnulíf og atvinnubílstjóra sem starfa hér á landi meðal annars með tilliti til kostnaðar, skipulags og tilhögunar endurmenntunar og fleira. Skilabréf hópsins var afhent þáverandi ráðherra þann 4. mars 2013 og náðist þar nokkur sátt um allflest álitaefni sem tekin voru fyrir.

Ljóst er að frumvarpið eins og það liggur fyrir mun hafa mest áhrif á einyrkja og minni fyrirtæki. Því er það tillaga okkar og tillaga mín, virðulegur forseti, eins og fram kemur í frumvarpinu, að gefa aukið svigrúm þannig að handhafar viðkomandi ökuskírteina uppfylli skilyrðin í síðasta lagi árið 2018. Það verður í höndum innanríkisráðuneytisins að útfæra reglugerð um þau álitaefni sem út af standa. Með því móti teljum við að komið sé til móts við þær áhyggjur og umkvartanir sem hafa verið bornar fram vegna þeirra breytinga sem hér eru og þetta er í samræmi við niðurstöðu þess starfshóps sem ég nefndi áðan að hefði verið skipaður af fyrrverandi innanríkisráðherra.

Hæstv. forseti. Frumvarpið inniheldur tillögur um breytingar á ákvæðum um skráningu bifreiða í ökutækjaskrá. Meginefni þeirra breytinga er að Samgöngustofu er falið innan þess ramma sem ráðuneytið setur að veita undanþágur frá skráningu ökutækis sem ekki er ætlað til almennrar umferðar. Þannig er ákvörðunarvaldið í slíkum málum fært frá ráðuneyti til undirstofnunar og um leið opnuð kæruleið fyrir umsækjendur sem ekki vilja una niðurstöðu Samgöngustofu. Ákvæði þetta verður að teljast fela í sér hvort tveggja hagræðingu í stjórnsýslu og hagsbætur fyrir borgarana.

Í tengslum við skráningu ökutækja er einnig rétt að nefna að frumvarpið gerir ráð fyrir að niður falli skylda til þess að skráningarskírteini fylgi ökutæki. Sú krafa hefur reynst hafa í för með sér mikinn óþarfa kostnað og umstang þar sem lögregla getur í dag auðveldlega aflað sér upplýsinga um ökutæki á rafrænan hátt. Áfram verður þó hægt að fá skráningarskírteini útgefið hjá Samgöngustofu sé þess óskað.

Í frumvarpinu er einnig að finna tillögur sem miða að því að heimila umferðareftirlitsmönnum að kanna ástand tiltekinna stórra ökutækja á vegum úti. Breyting þessi er í samræmi við skuldbindingar ríkisins samkvæmt tiltekinni tilskipun Evrópusambandsins. Tilskipunin hefur þegar verið innleidd í íslenskan rétt með reglugerð en ESA hefur gert athugasemdir við þá innleiðingu auk þess sem vegaskoðanir hafa ekki reynst framkvæmanlegar hér á landi þar sem heimildir umferðareftirlitsmanna samkvæmt lögum hafa ekki reynst nægar. Er í frumvarpinu stefnt að því að bæta úr þeirri stöðu og má ætla að þegar ástandsskoðanir á vegum hefjist muni það hafa jákvæð áhrif á umferðaröryggi.

Loks er í frumvarpinu ákvæði um öryggis- og verndarbúnað barna í bifreiðum þar sem reglur um slíkan búnað eru færðar til samræmis við skyldur íslenska ríkisins samkvæmt tilskipun 91/671/EBE.

Hæstv. forseti. Ég hef rakið helstu atriði frumvarpsins. Legg ég til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.